Góðvinur Molanna í Osló, Helgi Haraldsson, prófessor emerítus sendi eftirfarandi (08.02.2014) vegna fréttar á vefnum dv. is: ,,Það er nógu slæmt að vera með fæðingargalla þó hann sé ekki meðfæddur í þokkabót!
http://www.dv.is/folk/2014/2/8/stritt-vegna-augnanna-NV6LPS/
Molaskrifari þakkar Helga sendinguna.
Það var góð tilbreyting á laugardagskvöldið (08.02.2014) þegar Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur í Ríkissjónvarpinu sagði okkur veðurfréttir frá Grænlandi og birti staðanöfn á Grænlandskortinu. Enn spyr Molaskrifari hversvegna eru ekki alltaf birt borganöfn á veðurkortunum, – eins og gert hjá Stöð tvö? Ræður tölvutækni Ríkissjónvarpsins ekki við það? Þetta virðast allar sjónvarpsstöðvar geta gert.
Ólafur Ragnar fór yfir málin með Pútín, segir í frétt á visir.is (07.02.2014) http://m.visir.is/Sport/Frett?ArticleID=2014140209180
Í þessari frétt er ekki eitt einasta orð um að þeir hafi rætt einhver mál. Aðeins sagt að vel hafi farið á með þeim.
Vafasöm sagnfræði og smeðjulegur texti spilltu svolítið þætti um sögu Eimskipafélagsins,sem Ríkissjónvarpið sýndi á sunnudagskvöld (09.02.2014) . Þætti sem um margt var annars ágætur. Sá góði listamaður, Egill Ólafsson, sem las textann ætti heldur að halda sig við tónlistina. Þar skáka honum fáir.
Í fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (07.02.2014) var sagt: … að ítarleg rannsókn fari fram um málið. Rannsóknir fara ekki fram um mál. Mál eru rannsökuð eða rannsókn fer fram á málum eða í málum.
Af mbl.is (07.02.2014): ,,Innanríkisráðuneytið hefur veitt ríkissaksóknara öll þau gögn sem til eru í ráðuneytinu …” Hér er talað um að ,,veita gögn”. Eðlilegra að tala um að afhenda gögn, veita aðgang að gögnum.
Er að / erum að sýkinnar sér víða stað. Í Kastljósi (06.02.2014) sagði Helgi Seljan, að Pólverjar væru að fá talsveert lægri laun, en …. Betra hefði verið að segja að Pólverjar fengju talsvert lægri laun , en ….
Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan sjö og átta á laugardagsmorgni (08.02.20145) var sagt frá slysi þar sem hestur hafði ,,sparkað” í mann. Ekki rangt orðalag, en venjulega er talað að hestar sem slasa fólk slái, séu slægir. Sagt var að slysið hefði orðið í Reykholti. Reykholtin á landinu eru ekki bara eitt eða tvö. Þetta mun hafa gerst í Reykholti í Biskupstungum. Í sjö fréttunum var sagt að lögregla hefði keyrt manninum að Minni Borg. Lára Ómarsdóttir lagfærði þetta og færði til betra máls í fréttum klukkan átta, – lögreglan ók manninum að Minni Borg. – Upp á síðkastið hefur Molaskrifari á tilfinningunni að óreyndir og stundum stirðlæsir nýliðar annist, eftirlitslausir, fréttatímana á miðnætti og klukkan sjö að morgni. Engin verkstjórn. Það verður einhver fullorðinn líka að vera á vaktinni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
14/02/2014 at 23:33 (UTC 0)
Þetta er rétt athugað, Steini.
Steini skrifar:
14/02/2014 at 18:08 (UTC 0)
Þekkt söng- og útvarpskona segir í Fréttatímaviðtali 14. feb um maka sinn: „Hann er tólf árum yngri en ég og líklega er það hluti þess að sambandið vakti svona mikla athygli sem í raun eru ákveðnir fordómar því enginn hefði kippt sér upp við þetta ef kynjaskiptingin hefði verið öfug.“
Söngkonan hlýtur að hafa átt við að enginn kippi sér upp við það þótt karl sé eldri en kona hans. Þessu er öfugt farið hjá henni, en hefur ekkert með kynjaskiptingu að gera. Kynjaskipting getur ekki verið öfug (eða rétt) heldur jöfn eða ójöfn. Og hún er víst alveg hnífjöfn í umræddu ástarsambandi.