Trausti sendi Molum línu (20.02.2014) vegna fréttar á dv.is, http://www.dv.is/frettir/2014/2/20/i-besta-falli-hugarburdur/
Hann segir:
,,Kári hefur stefnt Lex og Karli Axelssyni, einum af eigendum stofunnar, vegna reikninga í tengslum við vinnu lögmannsstofunnar fyrir hann við málsvörn hans í dómsmáli verktakans Fonsa ehf gegn Kára vegna steypun á glæsihýsi hans við Fagraþing nærri Elliðavatni.“
Hvað er ,,steypun“? Veist þú það Eiður? “
Molaskrifari verður að játa að orðið steypun hefur hann aldrei heyrt. Er þetta ekki bara steypa hjá dv.is eins og stundum er sagt á ekki mjög vönduðu máli?
Úr DV (21.02.2014). Millifyrirsögn í grein á bls. 14: Óljóst hvort undirmenn bróðurs rannsaki. Eignarfallið er að sjálfsögðu bróður. Grunnskólavilla. Meira úr sama blaði: Á bls. 51 er talað um Geneva-borg. Það skyldi þó ekki vera Genf?
Margrét Sig. benti á eftirfarandi á fésbók (20.02.2014), – Molaskrifari hafði reyndar hnotið um þessa fyrri sögn fyrr um daginn: Í Fréttablaðinu gefur að líta fyrirsögnina, Pussy Riot konur svipaðar í Sotsjí……( þær voru barðar með svipum ). Þetta er auðvitað fáránleg fyrirsögn!
Molaskrifari vill meiri festu í flutning veðurfregna í Ríkissjónvarpinu. Stundum eru okkur sýnd veðurkort af Evrópu og stundum kort af Norður Ameríku. Sára sjaldan sjáum við veðurkort af öðrum heimshlutum. Það er eins og duttlungar veðurfræðinga ráði því hverju sinni hvaða kort eru sýnd, – eða hvað? Birta Líf veðurfræðingur þarf að huga að áherslum. Henni hættir til að flytja áherslur á seinni hluta orða. Tala um suðurSTRÖNDINA. Í íslensku er áhersla jafnan á fyrsta atkvæði.
Og svo skal enn einu sinni þráspurt: Hversvegna eru ekki borgaheiti á veðurkortum Ríkissjónvarpsins? Ræður tækni sjónvarps allra landsmanna ekki við svo einfalt atriði?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar