«

»

Molar um málfar og miðla 1423

Í fréttum Stöðvar tvö (25.02.2014) var talað um tímabundinn forseta Úkraínu. Sennilega var átt við bráðabirgðaforseta. Eða settan forseta eins og ágætlega var sagt var í fréttum Ríkissjónvarps. Nema óvenjulegur asi hafi verið á manninnum, hann hafi verið mjög tímabundinn. Í fréttaskrifum er alltaf betra að vita merkingu orðanna sem notuð eru.

 

Morgunblaðið gætti þess vel að birta ekki yfirlitsmynd af Austurvelli frá mótmælafundinum á mánudag (24.02.2014) þar sem hefði sést allur manngrúinn, sem þar var saman kominn. Það hentaði ekki ritstjórnarstefnu blaðsins, sem stundum tekur völdum af fagmönnum í fréttamennsku, sem þar vissulega starfa. Þetta minnir á þá gömlu daga, þegar sá víðkunni ljósmyndari Morgunblaðsins, Ólafur K. Magnússon á að hafa spurt, þegar hann var gerður út af örkinni til að taka mynd af fundum: Á að vera margt á fundinum ? Ritstjórum Morgunblaðsins þótti sennilega ekki við hæfi að margt væri á fundinum á Austurvelli.

 

 

Í ljósvakamiðlum verður að gera þá kröfu að framburður sé skýr og rétt sé farið með grundvallaratriði móðurmálsins. Molaskrifari hefur sennilega hlustað á símaþættina í Útvarpi Sögu á morgnana í samtals 15 mínútur frá því snemma í haust. Alltaf sömu símavinir á sömu nótum. Þessi hlustun dugði þó til þess að hann heyrði útvarpsstjórann segja við símavin: Þú ert alveg meda. Molaskrifari játar að hann skildi þetta ekki í fyrstu. Svo rann það upp fyrir honum að útvarpsstjórinn var að reyna að segja: Þú ert alveg með þetta. Í morgun (25.02.2014) var svo Pétur stjórnarformaður við símann og talaði um stjórnarskránna. Æ algengara er orðið að heyra talað um frúnna, brúnna og tánna. Í stað þess að tala um frúna, brúna og tána.

 

Vinsamleg ábending til Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur, sem sagði í seinni fréttum Ríkissjónvarps (25.02.2014), … rétt áður en klukkan sló tuttugu tvö. Klukkan slær aldrei tuttugu og tvö. Það væru nú meiri lætin! Klukkan slær tíu.

Önnur vinsamleg ábending. Nú til Björns J. Malmquists fréttamanns hjá Ríkisútvarpinu. Vítti, áminnti, ávítaði, ekki vítaði. Í fréttum á miðnætti á þriðjudagskvöld og aftur á miðvikudagsmorgni (26.02.2014).

.Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það kemur fyrir alla, – að sjálfsögðu 🙂

  2. Björn Malmquist skrifar:

    Réttmæt ábending Eiður og takk fyrir áminninguna. Svona getur manni orðið fótaskortur á tungunni stundum 🙂

  3. Eiður skrifar:

    Nei, Eirný. Þetta orðalag er út í hött.

  4. Eirný Vals skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég bið þið að fræða mig. Er vaninn að segja að þingforsetar sitji á ræðustól?

    Ég vísa í frétt á vef Morgunblaðsins.
    Þá sat á ræðustól Óttar Proppé, 6. varaforseti Alþingis.

    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/26/fundad_a_althingi_inn_i_nottina/

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>