«

»

Molar um málfar og miðla 1425

Í fréttum Stöðvar tvö (27.02.2014) var fjallað um aðgengi fyrir fatlaða að verslunum og húsum við Laugaveg. Þar var talað um að ganga á eftir því við húseigendur… Hefði átt að vera: …ganga eftir því við húseigendur, – hvetja húseigendur til aðgerða.

 

Molalesandi spurði (27.02.2014):!.” ,,Heyrðirðu þessa perlu í íþróttafréttum Ríkisútvarpsins núna kl 12:45:

sýndi af sér grófa íþróttamannslega framkomu!” Molaskrifari heyrði þetta reyndar líka og beið eftir leiðréttingu á mismælinu. Hún kom ekki. Öllum getur orðið á að mismæla sig, en þá er bara að leiðrétta mismælið.

 

Steingerðir hvalir fundust í jörðu í eyðimörk í Suður Ameríku. Talið er að fyrir milljónum ára hafi hvalirnir drepist vegna eitraðra þörunga í hafi sem einu sinni var. Í fréttum Ríkissjónvarps (27.02.2014) var sagt frá þessu og talað um hvalagrafreit. Ekki er Molaskrifari alveg sáttur við þá orðnotkun.

 

Sigríður Dögg Auðunsdóttir skrifar í Fréttatímann (28.02.-02.03.2014) ,, … annmarka skólakerfisins þar sem reynt er að steypa öllum nemendum í sama mót”. Hér ætti að mati Molaskrifara að tala um að steypa alla í sama mót. Gera alla eins. Ekki steypa öllum  í sama mót. Ef til vill vefst myndlíkingin eitthvað fyrir Sigríði Dögg.

 

Sagt var í hádegisfréttum Ríkisútvarps um ástandið í Úkraínu (28.02.2014) að þinghúsið og fleiri byggingar hefðu verið teknar yfir. Ekki vandað orðalag.

 

Molalesandi skrifaði (28.02.2014): ,,Spáðu í mig, þá mun ég spá í þig,“ söng Megas hér um árið. Sögnin að spá er í auknum mæli farin að taka með sér þágufall, sbr. þetta af visir.is ,,Sá klúbbur gengur út á það að smakka sem flestar tegundir af bjór hvar sem þú ert í heiminum og spá vel í honum”. Ég vona að fólk fari ekki að syngja „spáðu í mér, þá mun ég spá í þér“. Molaskrifari þakkar bréfið. Það er rétt. Þessi ambaga sést æ oftar. Því miður.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>