«

»

Molar um málfar og miðla 1427

Steini skrifaði (03.03.2014): ,,Mikil aukning hefur orðið á komum ferðamanna til landsins”, segir Mbl.is í frétt um ferðamenn um helgina. Þetta er ekki falleg íslenska. Ferðamönnum hefur fjölgað, væri betra. Í fréttinni stendur einnig að leiga sé ,,skrúfuð upp í botn“. Þarna eru höfð endaskipti á hlutunum því auðvitað fara hlutirnir NIÐUR á botn, en UPP í rjáfur/topp/hæstu hæðir…þetta er haft eftir viðmælanda í fréttinni, en blaðamenn eiga að taka í taumana og lagfæra svona vitleysur.
Fréttastjórar eiga að skikka alla blaðamenn til að lesa Einum kennt, öðrum bent eftir ÞÞ. Það væri skref í rétta átt. – Molaskrifari þakkar Steina bréfið.

 

Haraldur Ingólfsson segist fylgjast með Molum, en ekki hafa sent línu áður. Hann segir:
,,Svo ég komi mér beint að efninu, þá tók ég eftir einkennilegum fréttaflutningi í kvöld(03.03), en verið var að fara yfir fréttir í lok fréttatíma Stöðvar 2, en þar sagði Telma Tómasson að Oscar Pistorius væri morðingi fyrrverandi unnustu sinnar, en hún sagði jafnframt að Oscar hefði lýst yfir sakleysi sínu.

Orðrétt sagði hún í yfirlitinu:

,,Suður-Afríski hlauparinn Oscar Pistorius sem skaut unnustu sína til bana, lýsti yfir sakleysi við upphaf réttarhalda í morgun“
Svo var líka fullyrt í fréttinni sjáfri af hann hafi skotið hana.

Orðrétt er þetta svona í fréttinni.,,Suður-Afríski hlauparinn, Oscar Pistorius lýsti yfir sakleysi sínu í morgun þegar hann kom fyrir rétt í borginni Pretoriu. Pistorius skaut unnustu sína til bana á síðasta ári og sakaður um morð af yfirlögu ráði,,

Hér er hún að lesa frétt sem e-r skrifaði, og fullyrt er að Oscar hafi skotið konuna. Ef svo fer að hann verði dæmdur sekur, þá er ekki rétt að fara svona frjálslega með staðreyndir í þessu máli á fyrsta degi réttarhaldanna.

Þetta er fréttin,byrjar á 10:20min
http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=SRC7BD2F98B-A1B9-433C-8202-4AB365716657
Ekki er búið að dæma í málinu og maðurinn ekki sekur uns sekt er sönnuð.” Molaskrifari þakkar Haraldi bréfið. Réttmæt ábending.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (03.03.2014) var sagt frá því að Ólafur Ragnar Grímsson hefði ungur drengur vestur á Þingeyri orðið óhreinn á höndunum. Kunnugir telja að það sé sennilega í eina skiptið sem það hefur gerst.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Steini skrifar:

    Varðandi Oscar, þá er ekki tekist á um það hvort hann hafi skotið unnustuna til bana eður ei – því það gerði hann – heldur hvort þetta hafi verið ásetningsbrot. Staðhæfingin Oscar skaut unnustu sína til bana er því rétt.

    Ennfremur er fallegri íslenska að segja að sakborningur sé sakfelldur eða sýknaður. Ekki dæmdur sekur/saklaus.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>