«

»

Molar um málfar og miðla 1431

Molavin skrifaði (09.03.2014): ,,Er það rangminni mitt frá bernskuárum í sjávarþorpi, að talað hafi verið um dekkhlaðin skip eða báta? Þá voru ekki aðeins lestir fullar heldur skellt upp borðum á hliðar og dekk líka fyllt af síld. Það gat orðið hættuleg sigling og öll áhöfnin stóð á brúarvæng og var aðeins gert þegar sléttur var sjór. Síðar heyri ég nær eingöngu talað um drekkhlaðin skip – og nú í kvöld, laugardagaskvöld, var talað um „sökkhlaðna“ loðnubáta í fréttum Stöðvar 2.”

Molaskrifari hefur aldrei heyrt orðið dekkhlaðinn um báta eða skip með fullfermi. Hvað segja aðrir Molalesendur?

 

Molaskrifari vonar að það verði eitt af fyrstu verkum nýs útvarpsstjóra, sem boðinn er velkominn til starfa, að stöðva vitleysisganginn sem kallaður er Hraðfréttir og verja takmörkuðu dagskrárfé í vitrænni dagskrárgerð.

 

Þáttastjórnandi á Bylgjunni tók þannig til orða á laugardag (08.03.2014) að símalega væri allt að fara á hliðina í þættinum! Molaskrifari játar að hafa ekki heyrt þetta orðskrípi, símalega, áður. Og saknar þess ekki, þótt hann heyri það aldrei aftur.

 

Íþróttadeild Ríkissjónvarpsins gerist æ frekari til rýmis í dagskránni. Með sama áframhaldi verður þess vart langt að bíða að íþróttafréttir hefjist klukkan 19 00 og verði til klukkan 19 30. Síðan taki við almennar fréttir frá 19 30 til 19 40!

 

Fréttabörn fá stundum, – of oft reyndar, að leika lausum hala á netmiðlunum, – einkanlega um helgar. Á visir.is mátti lesa um þotu sem hefði sundrast í miðju lofti! http://visir.is/thotan-gaeti-hafa-sundrast-i-midju-lofti/article/2014140308910

Þetta var eitthvað lagfært síðar, eftir að ábendingar höfðu verið birtar á netinu. Hvar var gæðaeftirlitið?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Jón skrifar:

    Dekkhlaðinn er ekki að finna í Blöndal en þar er drekkhlaðinnn sagt þýða synkladt.

  2. Eirný Vals skrifar:

    Ég hef aldrei heyrt orðið dekkhlaðinn fyrr, en oft heyrt drekkhlaðinn.
    Mér finnst dekkhlaðinn ágætisorð.

    Kveðja,
    Eirný

  3. Þórður St. Guðmundsson skrifar:

    Ég minnist þess ekki að hafa heyrt orðið „dekkhlaðinn“ fyrr en finnst það ágætt. Ég sló orðið inn á timarit.is og fann nokkur dæmi. Hér er eitt frá 1948 úr Lesbók Morgunblaðsins: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3277690

    Þórður

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>