«

»

Molar um málfar og miðla 1440

Lesandi ,SIG, skrifaði (24.03.2014) vegna fréttar á dv.is:

http://www.dv.is/frettir/2014/3/24/kolnar-nokkud-skart-ur-vestri/
,,DV skrifaði upp af vef Vegagerðarinnar um breytingar á veðrinu (24.3). Bæði í fyrirsögn og upphafi fréttarinnar stóð: „Kólnar nokkuð skart úr vestri“.
Þannig stóð þetta þar til eftirfarandi spurning var borin upp í athugasemdakerfinu: „Hvers konar skart er þetta sem kólnar? Armbönd og eyrnalokkar eða bara hálsfestar?“
Til að athuga hvort mistökin fælust í ógætilegri copy/paste vinnu athugaði ég vef Vegagerðarinnar en þar var þetta rétt. Taka ber fram að ég fór inn á vef Vegagerðarinnar örfáum mínútum eftir að frétt DV var birt.
Blaðamaður DV hefur því líklega ætlað sér að „leiðrétta“ Vegagerðina með þessum árangri og þurfti ábendingu frá lesanda til að leiðrétting yrði gerð. Merkilegt.”  Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Í Molum hefur stundum verið vikið að enskuslettum í auglýsingum. Þær gerast nú æ algengari. Í Fréttablaðinu (21.03.2014) var auglýst: Hættu í megrun vertu fit. Svo fylgdi sögu, að verið væri að auglýsinga Fit kjúklinga-salat.- Hversvegna bandstrik í orðinu kjúklingasalat? Auglýsandi var nefndur  Culiacan. Ekki til fyrirmyndar.

 

Fróðlegt viðtal Þóru Arnórsdóttur við Jón Ólafsson, prófessor við háskólann ´Bifröst um málefni Úkraínu í Kastljósi á mánudagskvöld (24.03.2014). Málið ekki eins einfalt og sumir stjórnmálamenn innlendir og erlendir vilja vera láta.

 

Það segir Molaskrifara afskaplega lítið þegar þáttastjórnendur í sjónvarpi segjast vera með sneisafullan þátt ( til dæmis Gísli Marteinn á Sunnudagsmorgni 23.03.2014). Merkingarlaust orðagjálfur.

 

Í bílablaði Morgunblaðsins (25.03.2014) segir í myndatexta: Engu er til sparað til að gera innarýmið (svo!) í Lexusnum sem vistlegast og veglegast. Betra væri: Ekkert er til sparað til að gera Lexusinn vistlegan og veglegan að innan. Mjög oft er ruglað saman: Engu til kostað og ekkert til sparað.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>