«

»

Molar um málfar og miðla 1442

Í inngangi fréttar í Ríkisútvarpinu (28.03.2014) um atkvæðagreiðslu um heimild til verkfallsboðunar hjá flugvallastarfsmönnum var sagt þeir væru að kjósa um verkfall. Ekki kann Molaskrifari að meta það orðalag. Í fréttinni talaði fréttamaður réttilega um að greiða atkvæði um verkfallsboðun. Þetta var sömuleiðis rétt í fréttinni á vef Ríkisútvarpsins: http://www.ruv.is/frett/fyrsta-vinnustoppid-yrdi-8april

 

Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 16 00 á föstudag  (28.03.2014) var sagt frá því að Jens Stoltenberg  fyrrverandi forsætisráðherra Noregs yrði næsti sendiherra Atlantshafsbandalagsins. Hið rétta er að Jens Stoltenberg verður næsti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Þetta var ekki leiðrétt í fréttatímanum. Kannski var enginn á fréttastofunni að hlusta, eða að mönnum finnst ekki taka því að leiðrétta svona missögn. Þetta var hinsvegar rétt á fréttavef útvarpsins. http://www.ruv.is/frett/stoltenberg-naesti-framkvaemdastjori-nato

 

Fyrirsögn heilsíðuauglýsingar í Fréttatímanum )28.-30.03.2014) er: Félag Íslenskra Teiknara kynnir sigurvegara FÍT verðlaunanna 2014 Sigurvegari verðlaunanna! Ekki gott orðalag. Þar að auki ætti að skrifa heiti félagsins samkvæmt íslenskum stafsetningarreglum, – Félag íslenskra teiknara.

 

DV greindi frá því í helgarblaðinu (28.-31.03.2014) að Andri Freyr Viðarsson og Guðrún Dís Emilsdóttir, umsjónarmenn Virkra morgna á Rás tvö í Ríkisútvarpinu muni nú ganga til liðs við Kastljós sjónvarpsins. Ágætur maður sagði á fésbók, að nú muni ambögurnar, enskusletturnar og bullið fá að njóta sín í mynd. Dómgreindarleysi stjórnenda Ríkisútvarps virðist stundum óendanlegt.

Á að eyðileggja Kastljósið sem fréttaskýringaþátt?

 

Í fréttum Stöðvar tvö (28.03.2014) var talað um að síðasti kennsludagur færi fram … Einfaldara og betra hefði verið að segja, að síðasti kennsludagur væri …

 

Úr DV (28.-31.03.2014): .. og afleiðingarnar voru að ryð fór að gæta innan dósanna. Klúðurslegt orðalag. Afleiðingarnar voru þær að dósirnar ryðguðu að innan.

 

Endurfluttur þáttur Unu Margrétar Jónsdóttur Á tónsviðinu um Jón frá Ljárskógum (30.03.2014) var sannkölluð útvarpsperla. Eins og reyndar flestir þættir sem hún gerir. Takk.

Sömleiðis skal þakkað það ágæta framtak Ríkissjónvarpsins að sýna okkur Engla alheimsins í beinni útsendingu á sunnudagskvöld (30.03.2014). Kominn tími til að sýna okkur eitthvað annað en boltaleiki í beinni útsendingu. Mættum við fá meira að sjá og heyra. Þessi útsending var listaverk.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>