«

»

Molar um málfar og miðla 1469

 

Í fréttayfirliti hádegisfrétta Ríkisútvarpsins sl. sunnudag (11.05.2014) var sagt: Hin austurríska Conchita Wurst sigraði Júróvisjón með yfirburðum í gærkvöld. Sem sagt, söngvakeppnin steinlá. Var gjörsigruð. Enginn les yfir áður en lesið er yfir okkur.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (14.05.2014) frá Tyrklandi var sagt að lögreglan hefði beitt táragasi og vatnsdælum til að leysa upp mannfjöldann. Vonandi hefur fólkið ekki verið leyst upp, heldur hafi lögreglan notað vatnsdælur og táragas til að dreifa mannfjöldanum.

Í fréttum frá Úkraínu á mánudagsmorgni (12.05.2014) var sagt: ,, .. sagðist þó vera reiðubúinn til viðræðna við þá íbúa austur Úkraínu, sem vildu berjast á réttmætan hátt fyrir markmiðum sínum og hefðu ekki blóðugar hendur”.Þetta finnst Molaskrifara ekki vera vel orðað. Til dæmis hefði mátt segja; – sem ekki hefðu stofnað til blóðsúthellinga málstað sínum til framdráttar.

Eftirfarandi er af vef Ríkisútvarpsins  (13.05.2014): ,,Enginn var handtekinn í mótmælum við lögreglustöðina á Hverfisgötu og Innanríkisráðuneytið í dag samkvæmt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu”. Það er  ( að mati Molaskrifara) heldur  klúðurslegt að segja að eitthvað sé  samkvæmt lögreglunni,  – að sögn lögreglunnar væri betra.

 

Gamall skólabróðir Molaskrifara, sem lengi hefur verið búsettur erlendis fylgist með netmiðlum og lætur sér annt um móðurmálið. Hann vísar á þessa frétt á visir.is (11.05.2014) : http://www.visir.is/verslingar-hlutgera-baedi-kynin/article/2014140519882

Verslingar hlutgera bæði kynin

Hann segir: ,,Nú stend ég á gati. Hvað þýðir þetta á mannamáli? Þýddu þetta fyrir mig”. Molaskrifari játar hispurslaust að hann stendur líka gati.

 

Rafn benti á þessa frétt á mbl.is (08.05.2014) http://www.mbl.is/frettir/kosning/2014/05/08/meirihlutinn_fallinn_i_reykjanesbae/:

Hann segir: Fréttabörnin enn, – og heldur áfram

,,Hér er fullyrt, að meiri hluti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ sé fallinn. Við lestur fréttarinnar kemur hins vegar í ljós, að enginn af bæjarfulltrúum meirihlutans hefir látið af stuðningi við hann, en líklegt er talið, að viðkomandi flokkur myndi missa meirihluta sinn, ef kosið væri í dag. Þar sem stutt er til kosninga er líklegt að sú niðurstaða verði í komandi kosningum. Núverandi meiri hluti starfar hins vegar til kosninga og enginn hefir mér vitanlega kannað hvort aðrir flokkar vilji ganga til liðs við hann eftir kosningar, ef spáð fylgistap gengur eftir”. Molaskrifari þakkar Rafni línurnar. Þetta er auðvitað rétt ábending.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>