«

»

Molar um málfar og miðla 1475

 

Margir hafa bent á hina dæmalausu firru í fyrstu setningu í grein SDG, forsætisráðherra , sem birtist m.a. á visi is (19.05.2014) http://www.visir.is/stor-dagur-fyrir-heimilin/article/2014705199949

Þar talar ráðherrann um ,,leiðréttingu á skuldalækkun”, sem þýðir væntanlega skuldahækkun! Óskýr texti. Óskýr hugsun. Sama gildir um grein tveggja frambjóðenda sama flokks, Framsóknarflokksins, í Morgunblaðinu (21.05.2014),, Krefjumst raunhæfra hugmynda og leiða svo hægt sé að byggja Reykjavík fyrir venjulegt fólk, ekki innihaldslaus loforð korter fyrir kosningar”. Óskýr texti. Óskýr hugsun. Þegar Molaskrifari þekkti best til var fólk í Framsóknarflokknum sem gat hugsað ágætlega skýrt. Því hefur greinilega fækkað mjög.

 

Af mbl.is (19.05.2014): Mynd­irn­ar um Guðfaðir­inn eru hans þekkt­asta verk en þá tók hann einnig upp kvik­mynd­ir á borð við Annie Hall, In­ter­i­ors, Man­hatt­an og Star­dust Memories. Einu sinni var kennt í barnaskólum og seinna í grunnskólum hvernig beygja ætti orðið faðir. Sú kennsla hefur ekki náð til þess sem þetta skrifaði á mbl.is.

 

Þeir sem ráða dagsskrá Ríkissjónvarpsins virðast trúa því að íslenska þjóðin hafi ótakmarkaðan áhuga á slökkviliðsmönnum og bráðaliðum í Chicago. Er ekkert betra efni í í boði? Er ekki komið nóg?

 

Rafn benti Molaskrifara á nýsamþykkt lög frá Alþingi, sem heita, – Lög um framkvæmdarvald ríkisins í héraði Hann spyr: ,,Er þetta eðlileg eintala á framkvæmdarvaldi? Ég hefði notað fleirtöluna, en þetta er komið í lög.” Molaskrifari hefði reyndar gert það líka. En þetta mun ekki vera nýtt og íslensk orðabók hefur að geyma bæði orðin framkvæmdavald og framkvæmdarvald.

 

Er útilokað að Ríkissjónvarpið geti fundið dagskrárkynni,sem talar með eðlilegum áherslum og eðlilegri hrynjandi? Svona eins og venjulegt fólk?

 

Á annað hundrað manns gengu með Guðný, sagði fréttamaður Stöðvar tvö , Magnús Hlynur Hreiðarsson. (21.05.2014). Tvisvar tókst honum að beygja þetta algenga nafn rangt í stuttri frétt. Fréttastjóri ætti að segja honum til.

 

Það er röng ákvörðun hjá stjórnendum í Ríkisútvarpinu að fylla fréttatímana í útvarpi og sjónvarpi af umræðum og framboðsræðum um sveitarstjórnarmál. Sú umfjöllun á ekki heima í fréttum, heldur í sérstökum þáttum utan fréttatímans.  Hversvegna er svæðisútvarp ekki endurvakið? Svona efni á heima þar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>