«

»

Molar um málfar og miðla 1490

Reyndir fréttamenn eiga ekki að rugla Evrópuráðinu (e.Council of Europe) inn í Evrópusambandið, ESB, eins og gert var í fréttum Ríkissjónvarps í gærkveldi (10.06.2014). Þar eru engin tengsl á milli. Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu 7. mars 1950. Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu, ESB. Í ESB er leiðtogaráð, (e. European Council) en í því sitja leiðtogarar aðildarríkjanna. Ráðið kemur saman fjórum sinnum á ári, eða þar um bil. Þar eru teknar stefnumarkandi ákvarðanir um mikilvæg mál. Ekki í fyrsta skipti sem þessi ruglingur heyrist. Ætti að vera í námsefni fjölmiðlunar 101.

 

Konuröddin, sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins, kallaði þann frækna ferðagarp Guðmund Jónasson í gærkveldi (10.06.2014) Guðmund Jónsson. Hve lengi ætlar Ríkissjónvarpið að bjóða okkur upp á þessi vinnubrögð?

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á hvítasunnudag (08.06.2014) var sagt: ,,Algengt er að öryrkjar eigi ekki pening fyrir mat …”. Það er sjálfsagt orðin viðurkennd málvenja að nota eintölu myndina peningur þegar talað er um aðum að eiga ekki peninga. Ekki er Molaskrifari fyllilega sáttur við þá orðnotkun í fréttum:

Í sama fréttatíma spurði fréttamaður: ,,Hefur málum eitthvað þokast í samningsátt?” Málum hefur ekki þokast. Hefur málum þokað áfram eða hafa mál þokast áfram.

Meira úr sama fréttatíma, en þá sagði fréttamaður: ,,Undirbúningur við hátíðina ( kvikmyndahátíð á Patreksfirði) tekur marga mánuði. Undirbúningur fyrir hátíðina, hefði þetta átt að vera. Svo spurði fréttamaðurinn:,,Hafið þið fengið einhver komment á fiskinn í ár ….” Ríkisútvarpið á að hafa metnað til að gera betur en þetta.

 

Molalesandi benti á fyrirsögn á mbl.is „Pórósjenkó vígður í embætti“

Hann spyr: ,,Getur verið að forseti Úkraínu sé vígður í embætti?” Molaskrifari svarar: Nei, – enda var þetta lagfært síðar á mbl.is. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Steini sendi eftirfarandi (09.06.2014): ,,Sæll Eiður. Öfgafullt gegn yfirvöldum Mér líkar ekki tilvitnuð fyrirsögn.
Árásarfólk, -er bara í lagi með öll samsett orð, þar sem árás er notað sem orðhluti, þótt árásarmaður, og árásarvopn, og -her sé gott og gilt? Árásarkona, og árásarunglingur, eða árásarslanga. Allt getur þetta fólk gert árás, og slangan. En það er ekki þar með sagt að það sé vit í þessum orðum.
Árásarfólkið í fréttinni mætti nefna morðingja, er það ekki?
Öfgafullt -maður er ekki öfgagullur gegn einhverjum, heldur öfgafullur í skoðunum. Eða bara öfgafullur. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/06/09/arasarfolkid_ofgafullt_gegn_yfirvoldum_2/

Molaskrifari þakkar Steina ábendinguna.

 

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (07.06.2014) var ítrekað talað um gestgjafa Brasilíu. Ekki heyrði Molaskrifari betur en hér væri einhver misskilningur á ferð. Það eru víst Brasilíumenn sem eru gestgjafar fjölmargra þjóða á heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu, sem senn dynur á okkur. ,,Þar sem gestgjafar Brasilíu mæta Króatíu” segir íþróttafréttamaður í dagskrárauglýsingu. Þetta orðalag er út í hött. Rugl. Er málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins alveg búinn að leggja árar í bát?

 

Bændur eru byrjaðir að hirða hey, var sagt í fréttum Ríkisútvarps (08.06.2014) . Ekkert athugavert við það. Áður fyrr hefði sjálfsagt verið látið duga að segja að bændur væru farnir að hirða.

 

Svo mikla haglél gerði, …. sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps að kveldi hvítasunnudags (08.06.2014). Svo mikið haglél gerði … hefði hann betur sagt. Haglél er nefnilega hvorugkynsorð.

 

Áhugaverðar mannlífsmyndir að venju í Inndjúpi (4:4) á hvítasunnudagskvöld í Ríkisjónvarpi. Ferðastiklurnar voru dálítið of tætingslegar fyrir smekk Molaskrifara. Hvað kemur okkur annars við hvaðan fatnaður Láru Ómarsdóttur kemur? Ekki baun í bala,eins og sagt var í gamla daga.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>