«

»

Molar um málfar og miðla 1504

 

Í áttafréttum Ríkisútvarps (26.06.2014) var sagt því að stærsta flugvél heims, vöruflutningaflugvél, hefði lent á Keflavíkurflugvelli. Fréttamaður kunni ekki að greina á milli orðanna farms og farangurs, en orðið farangur er venjulega notað um föggur ferðafólks. Hann sagði: ,,.. án eldsneytis og farangurs vegur vélin …  tonn”. Og seinna í fréttinni var sagt að vélin ætti heimsmet í að flytja ,,þyngsta farangur allra tíma sem var tæp 254 tonn”. Þyngsta farm, hefði þetta átt að vera. Í fréttum Stöðvar tvö var réttilega talað um farm.

 

Í sex fréttum Ríkisútvarps (24.06.2014) var sagt: Farþegum verður flogið suður … Farþegum er ekki flogið. Farþegar fóru flugleiðis suður. Farþegar fóru suður með flugvél.

 

Úrslitin eru að fara að ráðast, var sagt (26.06.2014 í tuðrutuði Ríkissjónvarps sem þar er kallað HM stofa. Margt snjallyrðið hrýtur mönnum þarna af munni.

 

Enn heyrast tilkynningar lesnar í Ríkisútvarpinu með hvimleiðum ,,Bylgjutóni”. Öllum setningum lýkur á lækkandi tóni. Heyrir þetta enginn í Efstaleiti eða er mönnum bara alveg sama?

 

Það er ekki seinna vænna heldur en að byrja, sagði sjónvarpskokkur (26.06.2014) í dagskrárkynningu á Stöð tvö. Einhver hefði mátt benda manninum á að þetta væri ekki gott orðalag. Betra hefði verið: Það er ekki seinna vænna að byrja.

 

Kafbáturinn Ægir var settur á flot í ánni Silfru á Þingvöllum í dag, sagði fréttaþulur Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (26.06.2014). Í gjánni Silfru á Þingvöllum átti þetta að sjálfsögðu að vera. Engin á á Þingvöllum, nema Öxará. Þar eru vissulega margar gjár en ekki margar ár.

 

,,Á sama tíma og afar viðkvæmt vopnahlé í Úkraínu lýkur”, las fréttamaður hikstalaust í morgun fréttum Ríkisútvarps á föstudagsmorgni (27.06.2014). – Á sama tíma og … viðkvæmu vopnahléi lýkur”. Viðkvæmt vopnhlé, – ótraust vopnahlé.

 

Í Fréttablaðinu segir (27.06.2014) : ,,Styrmir segir ljóst að forystumenn flokkanna verði að taka sig saman í herðunum og taka ákvörðun ...” Taka sig saman í herðunum??? Þetta hefur Molaskrifari ekki áður heyrt né séð. Stundum er sagt að menn þurfi að taka sig saman í andlitinu, herða upp hugann, koma einhverju í verk. Hafa menn heyrt þetta orðalag áður?

 

Á heimasíðu Ríkisútvarpsins geta menn skoðað dagskrána á nýlegum vef en einnig stendur eldri dagskrárvefur til boða. Eldri vefurinn var og er fínn, engin ástæða til breytinga. Miklu betri en sá nýi, Fréttir eru til dæmis miklu fyrr aðgengilegar á eldri vefnum en þeim nýja. Hvað veldur?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>