«

»

Molar um málfar og miðla 1533

 

Í kvöldfréttum og Spegli Ríkisútvarps (31.07.2014) var margsinnis talað um gjaldfall Argentínu. Molaskrifari er sammála málglöggum hlustanda, sem vakti athygli hans á þessu. Hann sagði: Skuldir geta gjaldfallið,en skuldarar gjaldfalla ekki. Greiðslufall verður, ef skuld er ekki greidd á réttum tíma. Skuldir sem komast í vanskil, eru gjaldfallnar. Skuldarar gjaldfalla ekki. – Allt var þetta miklu betur orðað í frétt Ríkissjónvarpsins sama kvöld um sama efni. Óaðfinnanlegt.

 

Sami hlustandi vakti athygli á því að í íþróttafréttum sjónvarps nýlega hefði verið sagt að knattspyrnuliðið Arsenal hefði verið kennt við eða orðað við tiltekinn leikmann. Hann sagðist hafa haldið að þetta ætti að vera á hinn veginn; – tiltekinn leikmaður hefði verið orðaður við knattspyrnulið. Rætt hefði verið um að hann gengi til liðs við félag eða lið. – Rétt

 

Honum vantaði góða nálgun, sagði ungur maður á Stöð tvö (30.07.2014). Hann var að kynna þætti sem hann ætlaði að gera um þjóðhátíð í Eyjum. Ekki hlusta menn grannt á þeim bæ á efni, sem ætlað er að vekja athygli á dagskránni. Þetta vekur vissulega athygli á dagskránni, en kannski ekki jákvæða athygli hjá öllum.

 

Ísland er inni, sagði ferðamálastjóri í viðtali í Ríkissjónvarpinu (31.07.2014). Hún átti við að Ísland væri vinsæll áfangastaður ferðamanna. Að segja að Ísland sé inni er hráþýdd enskusletta. Ég er ekki viss um að allir hafi skilið hvað konan var að segja.

 

Af dv.is (31.07.2014): Þeir sem vilja styðja fjölskylduna er bent á eftirfarandi reikningsnúmer: Enn eitt dæmið um að fréttaskrifari man ekki, eða veit ekki, hvaðan hann fór, þegar hann lýkur setningunni. Merkir sér fréttina reyndar með fullu nafni! ,,Þeim sem vilja styðja fjölskylduna er bent á eftirfarandi reikningsnúmer:’’

 

Í kvöldfréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (01.08.2014) var sagt að tjaldstæðin á Akureyri væru vel mönnuð. Ekki efast Molaskrifari um það þar hafi verið hið mesta mannval, – enda þótt um utanbæjarmenn væri að ræða. (Í gamla daga var það alltaf tekið fram í fréttum um innbrot á Akureyri, að þar hefði utanbæjarmenn verið að verki.) En sennilega var ekki verið að tala um ágæti þess fólks sem var á tjaldstæðunum, heldur verið að reyna að segja okkur að þar væri margt um manninn um þessa miklu ferðahelgi.

 

Næstu Molar á þriðjudag.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Jón skrifar:

    Þorri
    Bókmenntafræðingnum hefur reyndar farið fram.Ég hlustaði á allann þáttinn Orð um bækur í bílnum um daginn og tók eftir vitleysunum. Hins vegar hlustaði ég í fyrrasumar í bílnum á þátt sama bókmenntafræðings og þá varð ég að slökkva til að valda ekki hættu í umferðinnni. Mig minnir að ég hafi slökkt þegar blessaður fræðingurinn byrjaði að tala um Bavaríu. Að mig minnir benti ég Eiði á þáttinn í þessum athugasemdum.
    Dagskrárstjóri Rásar1 á að sjálfsögðu ekki að hleypa bókmenntafræðingnum að hljóðnema fyrr en einhver til þess bær hefur lesið handritið yfir.

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Þorgrímur. Ekki efast ég um að þú hafir heyrt rétt. Það er slæmt þegar metnaðarleysið ríður húsum eins og nú er í Efstaleitinu.

  3. Þorgrímur Gestsson skrifar:

    Sæll Eiður

    Oft hefur mig langað til þess undanfarna mánuði að hripa niður fallavitleysur sem vaða uppi í okkar annars ágæta Ríkisútvarpi (Rás 1) en það hefur einhvern veginn farist fyrir – þangað til í gær að mér ofbauð. Ég var að hlusta á bókmenntaþáttinn „Orð um bækur“ og undraðist að stjórnandi slíks þáttar gerði sig seka(n) um hverja vitleysuna af slíku tagi eftir aðra. Hún var að tala um kennslu í ritlist og þegar hún sagði: „Ekki skortir þeim ímyndunaraflið…“ var mér öllum lokið og ég hripaði það niður. Stuttu síðar sagði hún: „vonnabí ljóðskáld…“ sem ætti líklega að skrifast: wannabe. Er þetta boðlegt í bókmenntaþætti á Rás 1 Ríkisútvarpsins? Eða hefur málið breyst svo mikið að þetta sé orðið vikðurkennt gott mál? Á sama blað hafði ég krotað undir 11-fréttum sömu útvarpsstöðvar 23. júlí: …að ný skip væru í smíði. Ég tek fram að ég hlustaði á hvorugan þáttinn aftur til að fullvissa mig uym að ég hafi rétt eftir, en ég er alveg viss um að ég heyrði rétt.
    Kveðja,
    Þorgrímur Gestsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>