«

»

Molar um málfar og miðla 1546

Í Ríkissjónvarpi og útvarpi er aftur og aftur (15.08.2014)  talað um að menn stigi til hliðar,(e. step aside) þegar eðlilegt væri að tala um að þeir segðu af sér. Sjá hér neðar í Molum.

 

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (15.08.2014) : ,,Mekhissi-Benabbad var dæmdur úr keppni fyrir fagnarlætin og missti þar með að gullverðlaununum og titlinum. Mekhissi-Benabbad hafði sigrað í þessari greina á EM á síðustu tveimur mótum og var hann að vonum sár og svekktur að hafa misst af þriðja Evrópumeistaratitlinum í þessari grein. 

Mekhissi-Benabbad fékk í fyrstu aðeins „gult“ spjald frá dómara keppninnar en var síðar dæmdur úr leik eftir að Spánverjar höfðu lagt fram formlega kvörtun. Spánverjar áttu keppendur í fjórða og fimmta sæti og fengu þar með bronsverðlaun. 

 

Ofangreind tilvitnun er úr pressan.is. Í þremur málsgreinum í röð tilgreinir höfundur nafn eins manns. Þetta er oft kallað nástaða og mega lesendur velta fyrir sér ástæðunni. Hvort það er af því að sama nafn (eða orð) standa of nálægt hverju öðru eða hvort nafngiftin sé svona dauðans leiðindi. Í þokkabót treður höfundurinn orðinu „Spánverjar“ inn í tvær samliggjandi málsgreinar. Prófaðu að lesa ofangreinda tilvitnun upphátt og þá heyrist hversu leiðinlegur textinn verður. Þeir sem hafa atvinnu sína af skrifum í fjölmiðla þurfa nauðsynlega að vanda mál sitt og ekki síður huga að stíl og framsetningu.” Molaskrifari þakkar bréfið. Missti af verðlaununum. Ekki að verðlaununum.

 

Ágætur umsjónarmaður þáttarins Vikuloka á rás eitt í Ríkisútvarpinu þarf að venja sig af því að sletta. Undir lok þáttar á laugardag (18.06.2014) talaði hann um að menn óttuðust að deilur mundu eskalerast (e. escalate) aukast, magnast. Það á að nota orð sem fólk almennt skilur. Ekki sletta.

 

Hefði verið rétt af ráðherra að stíga alfarið til hliðar, sagði fréttamaður Ríkisútvarps (18.06.2014). Fréttamaður átti við hvort ráðherra hefði ekki átt að segja af sér. Formaður VG talaði líka um hvort ráðherra hefði ekki átt að stíga til hliðar. Étur hér hver eftir öðrum. Eins og svo oft áður.

 

Það er dálítið undarlegt, að Eimskipafélag Íslands skuli bjóða nýtt skip, Lagarfoss, ,,velkominn heim” eins og gert var í auglýsingum um helgina, þegar skipið kom til Reykjavíkur. Skipið á ekki heimahöfn á Íslandi. Lagarfoss er hentifánaskip eins og önnur skip þessa ,,óskabarns þjóðarinnar”. Heimahöfnin er St. Johns, sem er stærsta borgin og höfuðborg Antigua og Barbuda Í Vestur Indíum í Karíbahafi. Að þessu hefur áður verið vikið í Molum

 

Í fréttum Ríkisútvarps á laugardag (16.08.2014) var aftur og aftur sagt að Hillary Clinton hefði verið hljóðrituð. Samtöl við hana voru hljóðrituð. Eins gott að hún var ekki afrituð! Kannski er þetta orðalag allt í lagi?

Smámunir, kannski: Í hádegisfréttum Bylgjunnar (16.08.2014) var fimm eða sex sinnum talað um hernaðargögn. Hvað varð um hið ágæta orð hergögn? Styttra, betra.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það held ég ekki,Björn . St. Johns er til á Nýfundnalandi en þetta skip er skráð í St. Johns á Antigua Barbuda í Vestur Indíum.

  2. Björn Baldursson skrifar:

    Sæll, Eið’ur.
    Ég held að heimahöfn Lagarfoss sé í St. Johns á N’ýfundnalandi en ekki í borg með sama á eyju nafni í Karíbahafi.
    Kveðja,
    Björn

  3. Eiður skrifar:

    Sæl, – mér finnst ekki gott mál að tala um að vopna einhvern í merkingunni að sjá honum fyrir vopnum, láta honum í té vopn.
    Þetta með tímann á fréttunum hér áður fyrr er ég ekki viss um. Mig minnir þó að ekki hafi hafist útsending fyrr en klukkan átta og fréttir verið sagðar klukkan hálf níu. Er ekki viss. En Axel hóf lesturinn oftast með því að segja með sinni sérstöku rödd : Nú verða sagðar Lundúnafréttir.
    Skal hafa þetta í huga ef ég hitti gamla útvarpsmenn!

  4. Eirný Vals skrifar:

    Sæll,
    Um daginn sá ég skrif á vef eða blaði um að Rússar vopni (aðskilnaðarsinna að því ég man best).
    Ég held ég skilji hvað meint er, að Rússar útvegi aðskilnaðarsinnum vopn.
    Ég spyr, er þetta eðlilegt málfar?

    Svo er það annað sem ég held og vonast til að þú vitir.
    Við hjónin vorum að tala saman, um fréttatíma. Ég rifjaði upp að fyrir mörgum árum hefði Axel Thorsteinsson séð um fréttir að morgni og ætíð byrjað, Lundúnafréttir. Ég hélt að fréttatíminn hefði verið hálf átta að morgni.
    Þar sem ég fékk engan stuðning, maðurinn mundi ekki eftir neinu, datt mér í hug að leita til þín.

    Eiður, ég hefði gaman af því ef þú gætir rifjað þetta upp.

    Kveðja,
    Eirný

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>