Af visir.is (18.09.2014) : Útlit er fyrir þó nokkurri gasmengun frá eldgosinu næstu tvo daga. Ekki gott orðalag. Hér hefði til dæmis mátt segja: Útlit er fyrir þó nokkra gasmengun frá eldgosinu næstu tvo daga.
Klúðursleg þolmyndarnotkun í frétt á visir.is þenann sama dag: Þessum Jaguar E-Type var stolið af lögfræðingnum Ivan Schneider í New York borg árið 1968. Var lögfræðingurinn með bílinn á sér? Var bílnum stolið frá lögfræðingnum eða stal lögfræðingurinn bílnum? http://www.visir.is/fannst-eftir-46-ar/article/2014140918888
Af mbl.is (18.09.2014) um hjón sem dæmd voru í lífstíðarfangelsi: Dómarinn í málinu sagði að parið þyrfti að vera tekið úr samfélaginu. Seint verður sagt að þetta sé vel orðað. Meira af mbl.is sama dag úr frétt um skógarelda vestanhafs: Eldarnir hafa stækkað um helming síðasta sólarhringinn og ógna nú rúmlega 2000 heimilum. Eldarnir stækkað um helming?
Í Spegli Ríkisútvarpsins var sagt (17.09.2014) um kosningarnar í Skotlandi að úrslitin væru naum. Betra hefði, að mati Molaskrifara, verið að segja að úrslitin væru tvísýn. Mjótt væri á munum milli fylkinga. Um sömu kosningar sagði fréttamaður Stöðvar tvö daginn eftir að margínan væri svo lítil. Munurinn lítill. Þarna var algjör óþarfi að sletta á ensku, – jafnvel þótt fréttamaðurinn væri í Skotlandi.
Sigurlaug Margrét Jónasdóttir er ljómandi góður dagskrárgerðarmaður á Rás eitt í Ríkisútvarpinu. Frá henni hefur komið mikið af vönduðu og áhugaverðu efni. Það þolir hins vegar enginn dagskrárgerðarmaður, hversu góður sem hann er, þá ofnotkun sem við nú verðum vitni að.
Molaskrifari hefur nefnt það áður og ítrekar: Mikill fengur væri að því að fá heimildamyndir Niall Ferguson um Kína. China: Triumph and Turmoil til sýninga í sjónvarpi hér. Þetta eru þrjár breskar heimildamyndir, sem nýlega hafa verið sýndar í norska ríkissjónvarpinu. Og þar er að finna fróðleik til dæmis um gríðarleg umsvif og námarekstur Kínverja í Afríku, – koparvinnslu í Zambíu. Kínverjar ætla sér að hefja námarekstur á næsta bæ við okkur, – á Grænlandi. Það þarf að fræða Íslendinga um hvernig hin nýja herraþjóð heimsins, Kínverjar, kemur fram gagnvart öðrum þjóðum þar sem þeir eru að sölsa undir sig auðlindir og beita til þess öllum tiltækum ráðum. Allt frá eiturlyfjum til íþróttaleikvanga.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar