«

»

Molar um málfar og miðla 1579

 

Þáttur þeirra Láru Ómarsdóttur og Gísla Einarssonar, Risinn rumskar, í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (25.09.2014), um eldsumbrotin í Bárðarbungu og gosið í Holuhrauni, var ágæt og fróðleg samantekt um atburðarásina fram að þessu. Ekki hefði þó verið verra að sjá meira af nýju myndefni. Þáttarins var að engu getið í prentaðri dagskrá í Morgunblaðinu. Þar var kynntur til sögu  garðyrkjuþáttur!  Í morgunútvarpi var sagt að þátturinn hæfist tuttugu mínútur í níu. Óskýrt orðalag. Betra hefði verið að segja tuttugu mínútum fyrir níu, eða þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í níu.

 

G.G. benti (24.09.2014) á frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem segir: „Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala og Háskóla Íslands er fjöldi Íslendinga sem stunda rannsóknir á taugasjúkdómum hér á landi afar fámennur, innan við tíu manns.“
Fámennur fjöldi! Einmitt það.

Tengill á frétt: – http://www.ruv.is/frett/„hun-er-ekki-a-leidinni-heim-thvi-midur“

Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Trausti benti á frétt á visir.is: http://www.dv.is/frettir/2014/9/24/bruninn-i-brekkubaejarskola-bornin-i-bekknum-hans-horfdu-sum-son-minn-brenna/

„Faðir nemandans sem brann segir stöðu sonar síns alvarlega“
Trausti segir:Nemandinn BRANN nú sem betur fer ekki, heldur BRENNDIST hann. – Molaskrifari þakkar ábendinguna. Það er alvarlegt ef fréttaskrifari skilur ekki muninn á að brennast og að brenna. Gæðaeftirlit og yfirlestur ekki til staðar.

 

Íslenskir stjórnmálamenn komast upp með það aftur og aftur í viðtölum við fjölmiðla að svara ekki því sem þeir eru spurðir um. Til dæmis Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu (24.09.2014) Spyrill nefndi að náttúrverndarfólk á Íslandi hefði skrifað ráðherra og heitið á hann að lofa því að Íslendingar mundu ekki nýta olíu- og gaslindir, ef slíkar fyndust við Ísland. ,,Hverju svararðu því” , spurði fréttamaður. Sigmundur Davíð svaraði því engu og komst upp með það. Þetta var raunar ekki eina spurningin í viðtalinu, sem hann svaraði ekki.

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa bent á að ræða forsætisráðherra á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna hafi stangast á við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er eins og það átti sig ekki allir því að það er liðin tíð, að menn geti sagt eitt í útlöndum og annað á Íslandi , sagt eitt í Skorradalnum og annað í Lundareykjadalnum. Það kemst alltaf upp.

 

Molaskrifari er á því að gera eigi greinarmun á því að kjósa um eitthvað og greiða atkvæði um eitthvað. Í Morgunútgáfunni Í Ríkisútvarpinu (25.09.2014) var tvívegis talað um að í breska þinginu yrði kosið um aðgerðir gegn hryðjuverkamönnum Islamska ríkisins sem svo kallar sig. Þarna hefði átt, að mati Molaskrifara að tala um að greiða atkvæði, en ekki kjósa. Þetta hefur oft nefnt í Molum.

Í sama þætti var talað um að versla mjólkurvörur. Við kaupum mjólkurvörur. Á málfarsráðunautur ekki lausan tíma? Þar var líka talað um spin-off. Ekki var það betra.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>