«

»

Molar um málfar og miðla 1589

 

T.H. benti (08.10.2014) á þessa frétt á mbl.is.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/07/frosti_fannst_eftir_3_ar/

„Starfs­mönn­um Villikatta grunaði að um týnd­an heim­il­iskött væri að ræða.“
Hann segir og spyr: Ekki grunaði mér það? En þér? Svarið er: Reyndar ekki, en hvar er gæðaeftirlitið hjá mbl.is ?

T.H. benti einnig á þetta á mbl.is sama dag: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/07/hljomsveitin_er_heit_fyrir_thessu/

„Jök­ul­bút­ur úr Jök­uls­ár­lóni mun gegna mik­il­vægu hlut­verki á tón­leik­um bresku hljóm­sveit­ar­inn­ar Madness í kvöld. Hef­ur bút­ur­inn verið flutt­ur frá Jök­uls­ár­lóni til London og verður hann á sviði með sveit­inni.“
,,Jökulbútur? – Piece of glacier ?
Er þetta þá ekki ísjaki?” – Það verður að teljast fremur sennilegt, – klakastykki.

 

Í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu í morgun (10.09.2014) var rætt við tvo blaðamenn um fréttir vikunnar. Annar var frá Fréttatímanum  hinn frá Morgunblaðinu. Blaðamanni Fréttatímans fannst réttilega fréttnæmt að aðstoðarmaður innanríkisráðherra hefði krafist fangelsisdóms yfir tveimur blaðamönnum sem gerðu mistök, en báðust strax afsökunar og birtu leiðréttingu. Vissulega stórfrétt. Blaðamanni Morgunblaðsins fannst það greinilega ekki, – hann nefndi málið ekki og var ekki um það spurður. Hvorugur blaðamannanna nefndi að daginn áður höfðu níu friðsamir mótmælendur fengið þunga sektardóma fyrir að mótmæla náttúruspjöllum við vegagerð í Gálgahrauni/Garðahrauni. Enginn hinna dæmdu veitti harðneskju fjölmenns lögregluliðs minnstu mótspyrnu. Blaðamaður Morgunblaðsins  sagði að dómari í íþróttakappleik hér á Íslandi hefði verið geymdur í protective custody vegna ótta um að honum yrði unnið mein eftir leikinn. Farinn að ryðga í móðurmálinu? Hann hefði til dæmis getað sagt að dómarinn hefði verið í öruggu skjóli nokkra stund eftir leikinn. – Kannski var fólk  bara ekki almennilega vaknað.

,,Ef við lítum á spánna” var sagt í Virkum morgnum Ríkisútvarpsins ((07.10.2014). Þetta virðist vera orðinn viðtekinn framburður nokkuð víða . Hvað segir málfarsráðunautur? – Og : Erum við komin þangað að manni langar í barómet og klukku? Einnig kom við sögu maður ,sem var staddur á Neskaupstað. Hvað segir málfarsráðunautur?

Molaskrifari hlustar örsjaldan á þennan þátt. Smáskammtur dugði þennan þriðjudagsmorgun.

Framburðurinn spánna barst í tal í hópi gamalla skólasystkina í vikunni. Skólasystir, ágæt og vel að sér um íslenskt mál, benti á að kannski ættu umsjónarmenn að hlusta á dægurlagatextann frá okkar yngri árum, sem Númi Þorbergsson samdi, – Nú liggur vel á mér. En þar segir meðal annars:

 

Svo sá hún Stjána, það vakti þrána,
hann kom á Grána út yfir ána
.

 

Lagið er íslenskt en höfundur þess er Óðinn G. Þórarinsson.

Þeir voru oft góðir dægurlagatextarnir í gamla daga, og sitja í manni enn. Kunnir og skemmtilegir textahöfundar voru auk Núma m.a. Skafti Sigþórsson sem kallaði sig Náttfara og Loftur Guðmundsson rithöfundur svo aðeins fáir séu til sögunnar nefndir.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>