«

»

Molar um málfar og miðla 1592

 

Fréttasíðu Íslamska ríkisins lokað af Advania, sagði í fyrirsögn á visir.is (10.10.2014) http://www.visir.is/sidu-is-lokad-af-advania/article/2014141019804

Betra hefði verið: Advania lokaði fréttasíðu Íslamska ríkisins. Germynd er alltaf betri.

 

Allskonar lífsreynslusögur fræga fólksins eru að verða meginuppistaðan í helgarblöðum Fréttablaðsins, DV og Fréttatímans, – sem kemur reyndar aðeins út einu sinni í viku. Molaskrifari játar algjört áhugaleysi á því hvar borgarfulltrúi Framsóknarflokksins fann ástina sína. Það var uppslátturinn á forsíðu DV fyrir helgina. En sjálfsagt lesa ýmsir svona skrif.

 

Úr DV (10.10.2014): Tugir manns voru handteknir í hrauninu … Betra hefði veriðað mati Molaskrifara: Tugir manna voru handteknir í hrauninu…

 

Hafdís bendir á frétt á fréttavef Morgunblaðsins , mbl.is (13.10.2014). Þar segir: Kalka í Helgu­vík flyt­ur ösku til urðunar í Nor­egi.
„Ýmsum spilli­efn­um og sótt­menguðum úr­gangi er einnig brennt í stöðinni og …“
Er ekki réttast að segja Ýmis spilli efni og sóttmengaður úrgangur eru brennd í stöðinni?” Molaskrifari er á því hvort tveggja sé ágætt orðalag, og þakkar Hafdísi bréfið.

 

Af vef Ríkisútvarpsins (10.10.2014) ,,Ráðuneytið virðist hafa tekið algjöra stefnubreytingu varðandi vistun ungra fanga í Háholti.” Hér hefði kannski farið betur á að segja, til dæmis: Ráðuneytið virðist hafa tekið upp gjörbreytta stefnu varðandi … , eða: Ráðuneytið hefur gjörbreytt um stefnu varðandi … Athyglisvert yfirlit yfir hringlandann í þessu máli var í fréttum Ríkissjónvarps (10.10.2014).

 

Svo handfrjáls farsímabúnaður í bíl Molaskrifara gegni sínu hlutverki þarf að vera kveikt á útvarpinu. Þessvegna er oftast opið fyrir Rondó Ríkisútvarpsins. Þar er fín og oft skemmtilega blönduð, tónlist af ýmsum toga. Ekkert áreiti Sjálfsagt er það tölva sem raðar þessu saman. Þjóðsöngurinn ,,Ó, guð vors lands” á hinsvegar ekki erindi í þessa blöndu. Hann var leikinn síðdegis á laugardaginn (11.10.2014). Þjóðsönginn á að leika við sérstök tækifæri. Það hlýtur að vera hægt að taka hann út úr þessu safni.

 

Enn einu sinni setti yfirgangur íþróttadeildar dagskrá Ríkissjónvarpsins úr skorðum í gærkveldi. Hér er ekki verið að amast við sýningu landsleiksins. Endalaust og innihaldslítið fjas að leik loknum seinkaði seinni fréttum um meira en tíu mínútur. Hversvegna mátti ekki færa fjasið á íþróttarásina og hafa t.d. Kastljós í dagskránni? Engin tilkynning í skjátexta. Engin þulartilkynning.  Við upphaf tíu frétta var heldur ekki beðist afsökunar á seinkun fréttatímans. En okkur var sagt að hann yrði í lengri kantinum í kvöld vegna landsleiks Íslands og Hollands! Ríkisútvarpið ber ekki mikla virðingu fyrir viðskiptavinum sínum. Stofnunin er staurblönk, en kurteisi kostar ekki neitt.

Hve miklu fé skyldi okkar bláfátæka Ríkisútvarp verja til að kaupa og leigja sérstök tæki til knattspyrnuútsendinga til að mæta kröfum Knattspyrnusambands Evrópu? Um það fá eigendur Ríkisútvarpsins ekkert að vita.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>