«

»

Molar um málfar og miðla 1639

 

Molavin skrifaði (17.1.2014): ,, Veiruvarnir gegn vírusum? Frétt á Pressunni (16.12.2014) hefst á þessum orðum: „Þessa stundina breiðist illskeyttur vírus hratt út á Facebook. Veiruvarnarfyrirtæki vinna nú hörðum höndum að því að reyna að stöðva útbreiðslu vírussins…“ Þetta er athyglisvert. Hér er í sömu málsgrein blandað saman enska orðinu vírus og hinni ágætu íslenzku þýðingu, veira. Væri ekki nær að sleppa „ísl-enskunni“ og halda sig við hina góðu þýðingu?

 

Árið 1955 áttu sér stað snarpar deilur um þýðinguna „veira“ á enska orðinu „virus.“ Vilmundur Jónsson landlæknir skrifaði þá eftirminnilega grein í Frjálsa þjóð undir fyrirsögninni „Vörn fyrir veiru“ þar sem hann varði þetta nýyrði, sem Sigurður Pétursson, gerlafræðingur hafði mótmælt, m.a. með þessum frægu orðum: „Nafnið veira hefur…ekkert fram yfir orðið vírus nema tilgerðina. Orðið vírus fer vel í málinu og beygist eins og prímus.“ Vilmundur svarar því með hæðni: „Fyrir rúmum hundrað árum, svo ekki sé litið lengra aftur í tímann, baslaði Jónas Hallgrímsson náttúrufræðingur og skáld við að þýða stjörnufræði á íslenzku. Hann felldi sig einhvern veginn ekki rétt vel við að æter héti á íslenzku blátt áfram eter og nefndi ljósvaka, sem virðist ekkert hafa fram yfir eter nema tilgerðina. Orðið eter fer vel í málinu og beygist eins og barómeter.“- Molaskrifari þakkar Molavin kærlega fyrir góða ábendingu og skemmtilega upprifjun. Þessi deila vakti þjóðarathygli á sínum tíma.

Greinina í Frjálsri þjóð má finna hér:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3640396&issId=259807&lang=da

 

Hvaða fyrirbæri er þessi Víæpí Hornafjarðarhumar,sem, Ríkisútvarpið er alltaf að auglýsa? Hefur auglýsingadeildin uppgötvað nýja humartegund? Hvað segja fiskifræðingar Hafró? Molaskrifara finnst þetta kjánaleg auglýsing, þó hann þykist vita hvaðan þetta furðulega orðalag í íslenskri auglýsingu sé ættað? Þetta víæpí er enska skammstöfunin VIP (e. very important person, heldri maður, fyrirmenni). Er þessi humar einhverskonar fyrirmenni, eða er hann bara ætlaður fína, mikilvæga fólkinu?

 

Í kvöldfréttum Útvarps í gærkveldi (18.12.2014) var sagt frá píanóleikaranum Leif Ove Andsnes sem lék (stórkostlega) með Lundúnafílharmóníunni í Hörpu í gærkvöldi. Sagt var að hann hefði hlotið heiðursorðu heilags Ólafs. Tölum við ekki um Ólaf helga?

 

Molaskrifari leit á dagatalið í morgun (19.12.2014) eftir að hann þóttist heyra umsjónarmann Morgunútgáfu í Ríkisútvarpinu segja að í ár væri aðfangadagur á föstudegi. Nei, aðfangadagur, 24. desember, er á miðvikudegi, eins og Molaskrifari hafði raunar haldið. En ekki heyrði Molaskrifari þetta leiðrétt. En kannski þarf þetta ekki að vera svo nákvæmt. Skemmtilegra er þó að hafa þetta rétt. Kannski var bara enginn þar efra að hlusta.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>