«

»

Molar um málfar og miðla 1693

 

Stundum misskilur fólk orðtök hrapallega. Eins og þingmaðurinn sem sagði í Morgunútgáfunni (10.03.2015): Ég hef aldrei dregið dulu fyrir það. Hann ætlaði að segja: Ég hef aldrei dregið dul á það. Aldrei leynt því. Sami þingmaður talaði um orsakavald, – orsök. Þingmaðurinn sagðist líka vonast til að það lagaði áfengismenninguna á Íslandi, ef frumvarp hans um sölu áfengis í matvörubúðum yrði samþykkt. – Það var og.

Það var kannski mismæli, þegar gestur, lektor í bókmenntafræði í þessum sama þætti (12.03.2015) talaði um farartæki,sem gætu farið bæði um land og láð. Láð er land. Átti við láð og lög. Sjó og land. Láðs og lagardýr.

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins í morgun (12.03.2015) var rætt við staðarhaldara í Staðarskála. – Útvarpsmaður spurði: Eruð þið farin að hilla upp  í (?) vorið? Átti líklega við hvort þess væru einhver merki að vorið væri nánd. Kannski er útvarpsmaðurinn er ekki á réttri hillu.

 

,,Þéttur íþróttapakki er handan við hornið”, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö á laugardagskvöld (07.03.2015). Þetta orðalag er svo sem engin nýlunda. Íþróttafréttir eru á báðum stöðvum kallaðar pakkar. Reyndustu fréttamenn Ríkissjónvarpsins segja okkur frá einhverjum íþróttapökkum (10.03.2015) Skrifara finnst þetta út í hött. Pakkar geta verið litlir eða stórir. Þeir eru ekki þéttir eða óþéttir. ,,Íþróttir og veður hér handan auglýsinga”, sagði Sigríður Hagalín Björnsdóttir ágætlega í Ríkissjónvarpinu sama kvöld.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (10.03.2015) var sagt frá komu farfugla til landsins. Sagt var að álftir væru komnar á Lón. Er ekki málvenja að segja í Lóni og oft með ákveðnum greini Lónið, þegar talað er um Lónssveitina austan Hornafjarðar? Molaskrifari hefur vanist því. Honum hefði fundist rétt að segja, að álftirnar væru komnar í Lónið.

 

Í fésbókarauglýsingu frá Samfylkingunni (10.03.2015) segir um fyrirhugaðan fund, að tveir þingmenn flokksins ætli að taka góðan velferðar- og fjárlagatvist og spjall á eftir. Hvað þýðir þetta?

 

… hugmynd,sem dúkkar reglulega upp, sagði umsjónarmaður í Morgunútgáfunni (10.03.2015). Ekki orðlag, sem hægt er að hrósa.

 

Fyrirsögn af mbl.is (11.03.2015): Rúturnar áttu að vera komnar í hús. Eru rútur venjulega hýstar á nóttunni? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/11/ruturnar_attu_ad_vera_komnar_i_hus/

 

Í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (07.03.2015) var talað um hálkusvell. Það orð hefur Molaskrifari ekki heyrt áður. Það er hvorki að finna í Íslenskri orðabók né á vef Árnastofnunar. http://bin.arnastofnun.is/forsida/

 

Lítur út eins og kélling frá Perú, var mjög smekkleg lýsing á listamanni í morgunþætti Rásar tvö Virkum morgnum á mánudagsmorgni(09.03.2015). Svona daginn eftir alþjóðlegan baráttudag kvenna. Í sama þætti sagði umsjónarmaður: Svo er smá varúð hér. Aðvörun (þetta var um færð) er eitt. Varúð er annað.

Enn einu sinni er lagt til að reynt verði að kenna umsjónarmanni Virkra daga að segja hljómsveit og hætta að segja /hljóst/.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>