«

»

Molar um málfar og miðla 1695

 

Það var ágætt hjá Ríkisútvarpinu í óveðrinu á laugardagsmorgni (14.03.2015) að tilkynna í níu fréttum að áfram yrðu fluttar fréttir af óveðrinu á Rás tvö. Þær urðu ekki margar að vísu, en þar var okkur sagt skömmu síðar að sendirinn á Skálafelli væri úti. Þulur endurtók þetta svo orðrétt skömmu síðar. Sagði það tilkynningu frá Ríkisútvarpinu. Ekki hefur málfarsráðunautur komið nálægt þeirri textagerð. Sendirinn hafði bilað í óveðrinu. Heldur hvimleiður siður að tala um, að það sem bilar sé úti eða niðri.

 

Algengt er að heyra sagt að farið sé á Geysi, eða að eitthvað hafi gerst á Geysi. Molaskrifara finnst eðlilegra að segja að farið sé að Geysi. Eitthvað hafi gerst við Geysi, austur við Geysi. Kannski sérviska, en hvað segja Molalesendur?

 

Hvernig  finnst þér að hafa sigrað síðustu heimsmeistarakeppni … Svona var spurt í neðanmálstexta í íþróttafréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (15.03.2015). Það  virðist  illviðráðanlegt að  koma því  til skila að það sigrar enginn keppni. Menn vinna sigur í keppni. Þetta heyrist aftur og aftur.

 

Fín fyrirsögn í Morgunblaðinu (13.03.2015): Fjöldi flugferða blásinn af. Fréttin er um truflanir á innanlandsflugi vegna veðurs á undanförnum vikum.

 

Ekki eins fín fyrirsögn af dv.is (13.03.2015): Von á versta veðri vetursins. Eignarfallið af orðinu vetur er vetrar ekki veturs.

Sjá beygingarlýsinu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=vetur

Hér er frétt dv.is ásamt fyrirsögn:

http://www.dv.is/frettir/2015/3/13/von-versta-vedri-vetursins-morgun/

 

ekki sú hjátrúarfyllsta í bransanum, sagði umsjónarmaður í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (12.03.2015), og talaði skömmu síðar um hönnunarbransann. Ekki mjög vandað málfar. Meira um þennan sama þátt: Hvað þýðir það, þegar umsjónarmaður talar um (eitthvert?) ægilega íþróttahátíð fyrir norðan?

 

Óskiljanlegt er að það skuli vera fjölmennustu fréttastofu landsins, fréttastofu Ríkisútvarpsins um megn að flytja fréttir, eða að minnsta kosti fréttayfirlit, klukkan tólf á hádegi á laugardögum og sunnudögum. Hvað skyldi valda? Ræður fréttastofan ekki við þetta? Er ekki fólk á vakt um hádegið á laugardögum og sunnudögum? Eða er þetta bara framkvæmdaleysi og slöpp verkstjórn? Eða er bara talið rétt að láta Bylgjunni eftir að flytja ein fréttir klukkan tólf á laugardögum og sunnudögum?

– Það hvarflaði meira að segja ekki að þessari öryggisstofnun alþjóðar, sem Ríkisútvarpið á að vera, að flytja okkur fréttir eða fréttaágrip klukkan tólf á hádegi í vonda veðrinu á laugardaginn (14.03.2014). Í staðinn hringdu bara klukkur Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti. Og turnklukkan sló tólf.

Er það klappað í stein að ekki skuli flytja fréttir klukkan tólf á hádegi um helgar?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>