«

»

Molar um málfar og miðla 1698

 

Gamall vinnufélagi benti á frétt á visir.is (18.03.2015), en þar segir: „Líkúd bandalagið, flokkur Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra Ísraels, sigraði þingkosningarnar sem fram fóru þar í landi í gær.“ – Af visir.is nú í morgun. Segir þetta eitthvað um stöðu móðurmálskennslu í skólum landsins, eða faglegan metnað miðilsins ? Spyr sá sem ekki veit. – Molaskrifari þakkar ábendinguna. Það virðist erfitt að hafa þetta rétt.

Hér er fréttin: http://www.visir.is/netanjahu-for-med-sigur-af-holmi/article/2015150319005

 

 

Af mbl.is (17.03.2015) : ,,Tjón á mann­virkj­um Landsnets urðu minni en út­lit var fyr­ir í óveðrinu sem gekk yfir landið á laug­ar­dag þrátt fyr­ir um­fangs­mikl­ar trufl­an­ir og út­leys­ing­ar í raf­orku­kerfi fyr­ir­tæk­is­ins.”  Hér hefði Molaskrifara þótt eðlilegara að segja að tjón hefði orðið minna, ekki að tjón hefðu orðið minni.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/17/tugir_staurastaedna_brotnudu/

 

Massaði það í Boston, sagði í fyrirsögn á mbl.is (17.03.2015).

Molaskrifari játar, að hann skilur þetta ekki. Telst þetta vandað mál? Hvað í veröldinni er að massa eitthvað?

http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/03/17/massadi_thad_i_boston/

 

Jóhannes skrifaði (16.03.2015): ,,Sæll Eiður. Finnst að fréttamenn RUV mættu vanda sig betur í fyrirsögnum sínum.
https://plus.google.com/share?url=http%3A//www.ruv.is/node/876003Hvernig er hægt að stökkva úr fallhlíf?” Þakka Jóhannesi rétta ábendingu. Menn eru í fallhlíf, eða með áspennta fallhlíf, þegar þeir stunda fallhlífarstökk. Þeir stökkva hins vegar úr flugvél, eða fram af hárri bjargbrún.

Molalesandi skrifaði sama dag: ,,Ég heyrði auglýsingu á Rás 2 nýverið sem hljómaði eitthvað á þessa leið: „Við gerðum Sjónvarp Símans fyrir þig…..“
Og þá spyr ég: Hvað þýðir „að gera“ sjónvarp?”  Ætli það þýði ekki að setja á laggirnar, stofna eða starfrækja? En heldur er þetta klaufalega orðað. Molaskrifari notar Sjónvarp Símans mikið þar bjóðast góðir kostir, – norrænu stöðvarnar , margar evrópskar stöðvar, fjölmargar fréttarásir þeirra á meðal BBC og CNBC, kínverska CCTV stöðin að ógleymdum frönsku Mezzórásunum, þar sem í boði er sígild tónlist. Mikið um úrvalsefni.

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>