«

»

Molar um málfar og miðla 1707

 

KÞ skrifaði (30.03.2015): ,,Hér er frétt um afrek nafna þíns:

http://kjarninn.is/2015/03/endurkoma-kongsins-eidur-smari-i-kastljosi-erlendra-fjolmidla/

,,Eiður Smári Guðjohnsen átti sögulega endurkomu í íslenska landsliðið í fótbolta í gær þegar Kasakar voru lagðir af velli … “

 

Þetta með og af reynist mörgum erfitt og dæmin um ranga notkun eru mýmörg. Í þessu tilviki væri þó ráð að reyna að gera sér í huganum mynd af því sem átt er við. Sjá frekar hér: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=1003

Í sömu frétt bendir KÞ á eftirfarandi:,, … sem innsigldu sigurinn … “ Það var og! Molaskrifari þakkar KÞ þarfar ábendingar. Þarna hafa menn ekki vandað sig, ekki hugsað, eða ekki vitað betur. Sá sem þetta skrifaði þarf aðhald og leiðsögn.

 

Af visir.is (30.03.2015): Í fréttinni, sem er um slys á jarðlestastöð í Londin, segir: „Fólk nálgaðist manninn og það voru öskur. Svo til allt kvenfólk var grátandi og ég stóð þarna með höfuðið í höndum mér.“ Þetta er heldur klaufalegt orðalag. Höfuð hvers ?  Vitnað er í frétt BBC, en þar segir: „People tried to approach him and there were screams. Pretty much every girl was crying and I just stood there head in hands,“ Mr Brown said. –

http://www.visir.is/kom-manni-til-bjargar-en-vard-sjalfur-fyrir-lest-og-do/article/2015150339939 – Maðurinn hélt um höfuðið í örvæntingu. Höfuð sitt.

 

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (30.03.2015): ,,Rafmagnsbilun varð til þess að hluti jarðlestakerfisins í miðborg Kaupmannahafnar lá niðri í sautján klukkustundir frá því í gærkvöld fram yfir hádegi.” Hluti jarðlestakerfsins lá niðri! Ekki nýtt að heyra svona til orða tekið. Það var og ! Ekki mjög vel orðað.

 

Góðvinur Molanna benti á eftirfarandi (30.03.2015): ,,Þú mætti taka fyrir það sem t.d. kom fyrir í fréttum RÚV um helgina, þar var sagt að Vinnueftirlitið hefði eftir heimsóknir gert athugasemdir við aðstöðu í fiskvinnsluhúsum. Þetta er rangt; starfsmenn stofnunarinnar voru á ferð. Og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja ekkert í málinu, heldur fulltrúi samtakanna. Það var tönnlast á þessu. – http://www.ruv.is/frett/vinnueftirlitid-hotar-ad-loka-fiskvinnslum

Vinnueftirlitið hótar að loka fiskvinnslum

Um vinnueftirlitið segir RÚV „Á vef eftirlitsins kemur fram að ÞAÐ muni heimsækja fleiri fiskvinnslufyrirtæki.“ – Leturbr. mín – . ÞAÐ

 

Svo bjargaði varðskipið Týr fólki, sagði í morgunþætti RÚV. Réttara væri að segja að þetta hefðu verið skipverjar á Tý.” Molaskrifari þakkar góðar athugasemdir.

 

 

 

Molaskrifari var að hefja lestur nýjustu bókar Arnaldar Indriðasonar, Kamp Knox. Páskakrimminn, eins og þeir segja í Noregi.

Fyrstu setningarnar í bókinni eru: ,,Hvass vindur blés yfir Miðnesheiðina. Hann kom norðan af hálendinu og yfir úfið hafið á Faxaflóanum og klifraði upp á heiðina, úfinn og kaldur.” – Höfundar hafa skáldaleyfi, og víst blæs oft vindur yfir Miðsnesheiðina, satt er það og rétt, – það vita þeir sem eiga rætur að rekja í Garðinn! En Molaskrifari er ekki sáttur við að vindur sem blæs af Faxaflóa komi norðan af hálendinu. Og ekki er nú Miðnesheiðin sérstakt brattlendi til klifurs. En sem sagt skáldaleyfi. – Þetta er meira til gamans sagt en gagnrýni, en spennandi er bókin og lipurlega skrifuð eins og höfundar var von og vísa.

 

Næstu Molar eftir páska.

Skrifari óskar lesendum gleðilegra páska.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>