«

»

Molar um málfar og miðla 1735

 

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins (14.06.2015) er spurning vikunnar: Telurðu nauðsynlegt að setja lögbann á verkfallsaðgerðir? Spurningunni er beint til fjögurra einstaklinga, sem blaðamaður hefur væntanlega hitt á förnum vegi.

Spurningin er ekki bara út í hött, heldur byggð á nokkuð viðamikilli vanþekkingu spyrjanda. Lögbann er fógetaaðgerð, sem beinist oftast gegn því að stöðva eða banna tiltekna framkvæmd eða aðgerð.  Ætlun blaðamanns var víst að spyrja hvort fresta ætti eða banna yfirstandandi verkföll með því að samþykkja lög á Alþingi. Þeir sem skrifa fréttir ættu að vita hver munurinn er á lögbanni og lagasetningu. Ritstjórar gætu beitt sér f yrir námskeiðum, sem gætu til dæmis borið yfirskriftina: Almenn lögfræði 101.

 

Í Staksteinum Morgunblaðsins (10.06.2015) segir: ,, … ágæt áminning um hve langt ESB-sinnar gengu til að þvinga áhugamál sitt upp á þjóðina”. Molaskrifara kann auðvitað að skjöplast, en málkennd hans er að einhverju sé þvingað upp á einhvern ekki eitthvað sé þvingað upp á einhvern.

 

Gögn sem skattrannsóknastjóri hefur nú keypt af erlendum huldumanni kostuðu 30 milljónir króna. Það er eins og einn og hálfur lúxusjeppi kostar, sem við daglega höfum fyrir augunum hér á höfuðborgarsvæðinu. Sektir frá einum skattsvikara gætu hugsanlega gert betur en að standa undir þessum 30 milljónum.

 

Glöggir Molalesendur bentu skrifara á að í skjátexta í fréttum Ríkissjónvarps (10.06.2016) hefði mátt lesa að fé dræpist umvörpum. Molaskrifari hnaut reyndar einnig um þetta. Hafði aldrei heyrt það áður, en orðabókin segir að jafngilt að segja umvörpum og unnvörpum, – í merkingunni í stórum stíl eða í miklum mæli. Unnvörpum er sjálfsagt talsvert algengara , en hvort tveggja jafngilt. Verra þótti Molaskrifara að hann þóttist í fréttayfirliti Ríkisútvarpsins klukkan 1800 sama dag talað um móðurharðindi. Fór í Sarpinn og hlustaði á  ný og heyrði ekki betur en þarna væri – r – á röngum stað. Verið var að vísa til móðuharðinda, hallærisáranna eftir Skaftárelda 1783.

 

Fyrirsögn af mbl.is (13.06.2015): „Það er ljós við enda gangnanna“. Þetta  var tilvitnun í orð fjármálaráðherra. Seinna var þetta leiðrétt. Ljósið var  við enda ganganna, ekki gangnanna. Göng –  ganga.  Göngur – gangna.  Menn flaska ærið oft á þessu.

 

Á laugardagskvöld  (13.06.2015) hlustaði Molaskrifari stundarkorn á þátt í beinni útsendingu á Rás tvö.

Hann veltir því fyrir sér hversvegna útvarpsmaður hélt uppi löngu samtali í síma  við hlustanda, sem mjög  greinilega var undir áhrifum áfengis. Dómgreindarbrestur.  Kannski fannst umsjónarmanni þetta fyndið.

 

– – ,,  En mér langar á minna á kvennahlaupið, sem fer  fram í 26. skipti í dag” , sagði íþróttafréttamaður í lok  íþróttafrétta Ríkisútvarps í hádeginu  á laugardag (13.06.2015). Málfarsráðunautur taki til sinna ráða.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Veit ekki, Siggi. Talað er um að öryggi slái út, – rjúfi straum, – er þetta ekki það sama ?

  2. Sigurður Oddgeirsson skrifar:

    Hvað skildi eftirfarandi klausa þýða? Tekin úr frétt í Mbl. 15. júní:
    Straum­laust varð í um 40 mín­út­ur fyr­ir há­degi á Akra­nesi og í nærsveit­um þegar Vatns­hamralína 2 leysti út í kjöl­far þess að að vöru­flutn­inga­bíll rakst í lín­una.
    Kannst við orðatiltækið að leysa höfn, en ekki að leysa út. Er þetta einhver enskusletta?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>