«

»

Molar um málfar og miðla1738

 

Rafn sendi eftirfarandi (15.06.2015):

,,Sæll Eiður

Hér er dæmi um fréttabarn, sem hvorki kann íslenzku né þekkir mismun á evrópskum og bandarískum talnakerfum.

Gjaldmiðill getur verið verðminnstur slíkra fyrirbæra, en verðlausari en verðlaus getur hann varla orðið.

Síðan er augljóst, að kvadrilljónin er af bandarískum ættum, þar sem 3 núll skilja að milljónir, billjónir, trilljónir o.s.frv. Í talnakerfum Íslands og Evrópulanda skilja hins vegar 6 núll þessar einingar, þannig að hinar 175 bandarísku kvadrilljónir jafngilda 175.000 evrópskum billjónum (175 billjörðum, ef menn kjósa þá einingu).

Bretar hafa á síðari árum ættleitt hin bandarísku talnakerfi, en önnur Evrópulönd halda sig enn við alvörueiningar.

PS: Hvernig skyldu simbabveski líta út („Simba­bveski doll­ar­inn“)”

Sjá:

,,Seðlabanki Simba­bve hef­ur til­kynnt að gjald­miðli lands­ins verði skipt út fyr­ir fimm er­lenda gjald­miðla. Simba­bveski doll­ar­inn er einn verðlaus­asti gjald­miðill heims. Öllum inn­láns­reikn­ing­um, með inni­stæðum frá núll til 175 kvaðrilljón­um simba­bveskra dala, verður skipt út fyr­ir reikn­inga með fimm Banda­ríkja­döl­um. Kvaðrilljón er þúsund trillj­arðar.”

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/06/13/simbabve_skiptir_ut_gjaldmidli_sinum/

Molaskrifari þakkar ábendinguna.

Snilldarmyndatexti var í miðopnu Morgunblaðsins á þjóðhátíðardaginn með  fimm dálka mynd . Hann hófst svona:

Íslenskt mjólk. Jú, hún hefur fylgt okkur Frónbúum og seðjað hungur okkar, blessuð mjólkin. – Ja, hérna. Maður getur fátt annað sagt. Sögnin að seðja beygist eins og sögnin að gleðja, seðja,- saddi, – gleðja,- gladdi – ekki eins og sögnin að veðja.

Í íþróttafréttum og fréttayfirliti í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (15.06.2015) var oftar en einu sinni talað um gestgjafa Pólverja. Ekki gat Molaskrifari betur heyrt en verið væri að um pólsku gestgjafana. Pólverjar voru gestgjafar, ekki gestir. Þessi meinloka hefur svo sem áður heyrst í íþróttafréttum. Hvað málfarsráðunautur athugi.

 

Úr Fréttatímanum,sem borinn var í hús á  fimmtudagskvöld (18.06.2015):  Kjölur opnar í fyrsta lagi um mánaðamót.  Fréttin var um færð, öllu heldur ófærð á fjallvegum. Kjölur opnar ekki neitt. Kjalvegur, vegurinn yfir Kjöl, verður í fyrsta lagi opnaður um mánaðamót.  Það er mörgum fréttaskrifaranum erfitt að hafa þetta rétt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Nei, það segirðu svo sannarlega satt.

  2. Kristján skrifar:

    Ekki eru þetta vönduð skrif á Visir.is:

    Laumufarþegi féll úr flugvél yfir London í morgun og lenti á verslun. Vélin var flogið frá Johannesburg í Suður-Afríku, en annar maður sem faldi sig um borð er í alvarlegu ástandi. Starfsmenn á Heathrow flugvellinum fundum manninn þegar flugvélin lenti eftir tæplega þrettán þúsund kílómetra ferðalag.

    Maðurinn sem lést féll úr vélinni þegar Boeing 747 British Airways kom til lendingar. Talið var að maðurinn hafi lent á þaki NotOnTheHighStreet.com verslunar og staðfesti talsmaður fyrirtækisins það við Sky News.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>