«

»

Molar um málfar og miðla 1749

 

ALLT UNNIÐ FYRIR GÝG?

Þannig spyr K.Þ. í  bréfi til Molanna (08.07.2015). Hann sendir þessa tengingu: http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/07/08/oli-bjorn-thingid-hefur-hvorki-tima-ne-thekkingu/

„Óli Björn rekur upp störf nýliðins Alþingis … “

Og  bætir við: ,,Þar fór í verra!”- Molaskrifari þakkar ábendinguna og nefnir að ekki væri verra  á stundum að geta rakið  upp það sem prójónað hefur verið á þinginu!

 

STAÐSETNING

Tveir björgunarbátar eru staðsettir á brúarþakinu,  var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (08.07.2015). Þarna  eru orðinu  staðsettir ofaukið. Það er óþarft.  Tveir björgunarbátar eru á brúarþakinu.  Í sömu frétt var talað um áhafnarmeðlimi. Eins og svo oft. Orðið skipverji er  fallegra.

 

UPPHAF ALDA?

Frá upphafi alda var sagt í auglýsingu um kvikmynd á Stöð tvö  (08.07.2015) að því Molaskrifari best gat heyrt. Þar hefur auglýsandi eða auglýsingastofa sennilega ruglað saman tveimur orðtökum , –  frá upphafi vega, –  frá örófi alda.  Frá alda öðli. Frá ómunatíð.

 

ÁIN UM ÁNA

Úr frétt af visir.is (08.07.2015): Það er óhætt að segja að það sé góður gangur í Norðurá en mikill kraftur er í göngunum í ánna. Hér  hefði auðvitað átt að segja að mikill kraftur væri í göngunum í ána.  Þetta er býsna  algeng villa, – kemur einnig oft fyrir í orðunum brú  og skór , þegar þau eru notuð með ákveðnum greini.

 

VERÐMÆTI

Í morgunfréttum  Ríkisútvarpsins (08.07.2015) var orðið  útflutningsverðmæti notað í fleirtölu. Hefði að mati  Molaskrifara átt að vera í eintölu. Í sömu frétt var okkur  sagt að  makríl  frumvarpið, svo nefnda, yrði  ekki afgreitt  fyrr en  á næsta þingi. Liggur það ekki í augum uppi, þar sem þingfundum hefur verið frestað til hausts?

 

 

KÆRULEYSI

Í fréttum  Stöðvar tvö (08.07.2015)  var sagt: Undiskriftasöfnunin  Þjóðareign lýkur á morgun. Söfnunin lýkur ekki.  Söfnuninni lýkur.  Það   byrja ekki allar setningar í nefnifalli eins og  sumir fréttamenn virðast halda. Áhrifssagnir stýra föllum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>