«

»

Molar um málfar og miðla 1754

MIKIÐ MAGN FERÐAMANNA!

Í fréttum Ríkissjónvarps (16.07.2015) var sagt: Ferðamenn streyma hingað í áður óþekktu magni. Það var og! Magn ferðamanna er venju fremur mikið í ár!!! Hér hefði farið betur á því að segja til dæmis, að ferðamenn kæmu nú til landsins í áður óþekktum mæli. Eða, – Fleiri ferðamenn koma nú til Íslands en nokkru sinni fyrr. Ekki magn ferðamanna, takk.

 

ÍSHELLIR OPNAÐI

Í sama fréttatíma var okkur sagt að íshellir hefði opnað í Langjökli í dag. Íshellirinn var opnaður. Hann opnaði hvorki eitt né neitt. Það er kannski vonlaust að berjast gegn þessari notkun sagnarinnar að opna. Molaskrifari mun samt halda áfram að nefna áberandi dæmi af þessu tagi úr fjölmiðlum.

 

BARMAMERKI

Á Bylgjunni (17.07.2015) voru auglýst barmamerki. Tölum við ekki um barmmerki?

 

ÓTELJANDI

Molaskrifari er á því að beygingavillurnar í fréttatíma Stöðvar tvö á föstudagskvöld (17.07.2015) hafi verið óteljandi eða því sem næst, – Auknar hjólreiðar leiða til fjölgun ….Eitt dæmi af mýmörgum. Er enginn metnaður hjá fréttastofu Stöðvar tvö til að vanda sig og gera vel?

 

ÍBÚÐAEININGAR

Hver er munurinn á íbúðum og íbúðaeiningum? Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (17.07.2015) talaði bæjarstjórinn í Garðabæ aftur og aftur um íbúðaeininga. Er það ekki bara íbúðir?

 

GANGA Á EFTIR

Í fréttum Bylgjunnar (17.07.2015) var sagt: … þar sem gengið er á eftir því að (flugbraut verði lokað) … Hér hefði átt að sleppa forsetningunni á. Að ganga eftir einhverju er að reka á eftir því að eitthvað verði gert eða ógert látið. Hinsvegar er talað um að ganga á eftir einhverjum með grasið í skónum .. þrábiðja einhvern um eitthvað, leita fast eftir því að ná ástum einhvers …

 

GÓÐ FYRIRSÖGN

Góð fyrirsögn á mbl.is: Ferðamenn á flæðiskeri staddir. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/16/ferdamenn_a_flaediskeri_staddir/

 

ÓBRIGÐUL SNILLD

Hún bregst ekki snilldin á Smartlandi mbl.is . Ekki frekar en fyrri daginn (17.07.2015): Landið er fullt af fjall­mynd­ar­leg­um, gáfuðum og klár­um kon­um í lausa­gangi. Molaskrifara grunar hvað hér er verið að reyna segja, – að fjölmargar myndarkonur séu ólofaðar. Séu ,,á lausu” eins og sagt er á slangurmáli. Vélar eru í lausagangi, þegar þær eru ekki tengdar við drif eða aflúttak. Stundum er talað um hægagang eða tómagang.

 

ENDURSÝNING?

Prýðilegur var þátturinn um Kristin Hallsson, sem Ríkissjónvarpið sýndi á sunnudagskvöld (19.07.2015). Andrés Indriðason sem annaðist dagskrárgerðina kann sitt fag. Í lok þáttarins kom fram að hann væri frá árinu 2013. Molaskrifari heyrði hinsvegar ekki né sá þess getið að verið væri að endursýna þáttinn. Eru það heiðarleg vinnubrögð? – Kannski fór tilkynning um endursýningu bara fram hjá skrifara. Það á að sjálfsögðu að segja okkur, þegar verið er að endursýna efni.

 

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>