«

»

Molar um málfar og miðla 1767

SKULDAR FYRIR BLÓMUM

Fyrirsögn af Stundinni á vefnum (05.08.2015): ,,Jón Óttar skuldar 300 þúsund fyrir blómum á sama tíma og hann fjárfestir í fjölmiðlum”. Maðurinn skuldar ekki ,,fyrir blómum” eins og sagt er í fyrirsögninni. Hann skuldar vegna blómakaupa. Sjá: http://stundin.is/frett/jon-ottar-borgar-ekki-brudkaupsblomin/

,,SÖRPRÆSES”

Í fréttum Stöðvar tvö (05.08.2015) var rætt við mann sem var að auglýsa samkomu. Hann sagði, að gestir gætu átt von á skemmtilegum sörpræses. Kannski hefur farið hálfgerður málfarshrollur en fleiri hlustendur en Molaskrifara við að heyra þetta.- Óvæntum skemmtilegum uppákomum, hefði hann til dæmis getað sagt.

 

TVÍLESIN KVÖLDSAGA

G.G. skrifaði (05.08.2015): ,,Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta.
http://www.visir.is/article/20150723/FRETTIR01/150729633

Hann segir einnig: ,,Unun er að hlusta á nóbelsskáldið lesa Brekkukotsannál á Rás1. En hvers vegna RÚV spilar sama lesturinn tvö kvöld í röð, 4. ágúst og 5. ágúst, er hulin ráðgáta eins og margt í rekstri RÚV. Þeir slá engar keilur með því, þó þá langi!” Víða í netheimum hefur verið vakin athygli á þessu og bent á að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem kvöldsögulestur er tvítekinn.

Það undarlega í málinu er að Ríkisútvarpið viðurkenndi ekki að handvömm eða klaufaskapur hefði valdið því að sami lestur var tvífluttur. Talað var um gleymsku.

 

HVÍVETNA – HVARVETNA

K.Þ benti (03.08.2015) á þessa frétt á visir. is: http://www.visir.is/amnesty-international-heldur-radstefnu-um-ad-afglaepavaeda-vaendi/article/2015150809875

„Markmið fundarins þykir umdeilt en það er að mælast til þess að vændi hvívetna í heiminum verði afglæpavætt.“ Sá sem þetta hefur skrifað skilur ekki muninn á orðunum hvívetna og hvarvetna.

 

DETTA INN

Fréttir eru mikið til hættar að berast. Þær detta inn, eins og sagt var í íþróttafréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld ( 04.08.2015).

 

ÁHUGAVERÐUR ÍSLENDINGAÞÁTTUR

Verður á dagskrá Ríkissjónvarpsins á sunnudagskvöld (09.08.2015) um Guðmund Ingólfsson. Einn allra besta jasspíanista íslenskrar jass-sögu. Snillingur sem hann var. Ríkissjónvarpið sýnir okkur hinsvegar ekki þá kurteisi, ekki frekar en fyrri daginn, að segja okkur hvort þetta er nýr þáttur, eða hvort þetta er endursýnt efni.  Undarlegur ósiður í Efstaleiti.

 

RÝRT Í ROÐINU

Er Molaskrifari einn um þá  skoðun, að Sumardagar, Hraðfréttaliðs Ríkissjónvarpsins   séu eitthvert  rýrasta og þynnsta  sjónvarpsefni , sem okkur hefur verið boðið upp á? Þættirnir, sem Molaskrifari hefur séð eru oftast ekki um neitt, nema þá sem fara með aðalhlutverkin. Varla er þetta ódýrt efni. Það er víst bannað að spyrja um kostnað við dagskrárgerð hjá hlutafélagi allra landsmanna í Efstaleiti. Hversvegna skyldi það vera?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hárrétt. Dagskrárkynningaflóðið í Ríkissjónvarpinu er löngu komið út í öfgar. Algjört rugl og stjórnleysi. Held að mörgum sé misboðið. Fyrr má nú rota en dauðrota eins og stundum var sagt.

  2. Kristján skrifar:

    Stórundarlegt hvernig þessir hraðfréttarugludallar fá að vaða uppi á besta tíma í sjónvarpsdagskrá RÚV. Ekki nóg með það, heldur eru þættir þeirra auglýstir mörgum sinnum á dag, á milli dagskrárliða. RÚV kann sér ekki hóf í dagskrárkynningu.

    Veðurfréttir eru sem fyrr á dagskrá að loknu auglýsinga- og dagskrárkynningarflóði og svo íþróttaþætti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>