«

»

Molar um málfar og miðla 1769

 

SLÆM ÞÝÐING

Glöggur lesandi Molanna sendi eftirfarandi ((09.08.2015) :

,, Eitt dæmi af mörgum í sérlega illa þýddu viðtali sem birtist á mbl.is: ,,Ég horfði niður á vinstri fót­inn minn sem var klesst­ur upp við stöng. Það var smá hold í sæt­inu og ég fann hvernig beinið mitt stakkst út,“ sagði Washingt­on þegar hún lýsti eft­ir­mál­um árekst­urs­ins.”” Molaskrifari þakkar sendinguna. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/09/eg_mun_lifa_odruvisi_lifi/

 

STAÐSETNINGARÁRÁTTAN

Enn um staðsetningar áráttuna, sem oft hefur verið vikið að hér áður. Leigubílastöðin Hreyfill auglýsir nýtt app, smáforrit, í sjónvarpi (07.08.2015): ,, Á kortinu getur þú fylgst með hvar bíllinn er staðsettur hverju sinni”. Einfaldara hefði verið: Á kortinu sérðu hvar bíllinn er.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (10.09.2015) var okkur sagt frá verslanamiðstöð sem væri staðsett í úthverfi Vesterås. Verslanamiðstöðin er í úthverfi Vesterås í Svíþjóð.

 

FYRIR HONUM

Á bls. 10 í Morgunblaðinu (08.08.2015) segir í inngangi greinar: Samtökin hafa mikla þýðingu fyrir honum. Hér á ekki að vera þágufall. Hér hefði átt að standa Samtökin hafa mikla þýðingu fyrir hann. Gamalreyndur maður sagði skrifara, að í ritstjóratíð Bjarna Benediktssonar hefðu einn daginn verið venju fremur margar villur og ambögur í blaðinu. Aldrei sagðist hann hafa séð Bjarna reiðari.

 

BJÓRÞAMB Á SKJÁNUM

Er það óhjákvæmilegur fylgifiskur hinna sjálfhverfu Sumardaga í Ríkissjónvarpinu, að umsjónarmenn þambi bjór á skjánum og veifi bjórflöskum? Skipafélagið Samskip fékk góða auglýsingu í þættinum frá Dalvík (07.08.2015). Það var auðvitað alveg óviljandi.

 

ÞVOTTUR – ÞVÆTTI

Af visir.is (08.08.2015): ,,Fyrrnefnd fjögur komu fyrir dóm daginn eftir handtökuna og voru ákærð fyrir vörslu fíkniefnanna í þeim tilgangi að selja þau og einnig fyrir ætlaðan peningaþvott”. Í þessu samhengi er málvenja að tala um peningaþvætti, ekki peningaþvott. Ríkisútvarpið talaði réttilega um peningaþvætti í hádegisfréttum sama dag. Sjá til dæmis Vísindavef Háskóla Íslands: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=3805

 

BULL?

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins (09.08.2015) bls.51 er sagt frá bók, sem nýkomin er út í íslenskri þýðingu um bandaríska rithöfundinn J.D. Salinger og samband hans við Oonu O´Neill. Hún varð eiginkona Chaplins, sem tók hana frá Salinger. Salinger átti ákaflega erfitt með að sætta sig við að Oona skyldi hafa valið Chaplin fram yfir hann. Sat í honum alla ævi. Oona giftist Chaplin um leið og hún varð 18 ára en hann var 36 árum eldri en hún. Salinger sótti í unglingsstúlkur, en glansinn virtist fljótt fara af þeim í huga hans. Undarleg sambönd sum hver.

Þessi bók virðist einskonar getgátu skáldsaga. Í blaðinu segir: ,,… flúði hann frá New York á býli í Cornish í New Hampshire, gróf sér göng að húsi sínu og sleppti þremur varðhundum lausum”. Molaskrifari er nýbúinn að lesa langa og ítarlega ævisögu þessa sérkennilega rithöfundar, (Salinger,2013, Shane Salerno og David Shields). Vandaðasta ævisaga Salingers, sem rituð hefur verið. Minnist þess ekki að þar sé nokkuð minnst á göng eða varðhunda. Afskekkt bjó hann og honum var meinilla við allar heimsóknir og boðflennur. Einangraði sig æ meir frá umheiminum er árin liðu. Sat linnulaust við skriftir alla daga. Hann lét eftir sig mörg frágengin handrit. Einhver þeirra koma út á næstu árum fimm arum eða svo. Þau munu eiga greiða leið á metsölulista. Þar verður Glass fjölskyldan enn á dagskrá. Jerome David Salinger er einn af sérkennilegustu höfundum síðustu aldar.

Skáldsaga hans um Holden Caulfield, Catcher in the Rye, var tímamótaverk og bókmenntasprengja á sínum tíma. Flosi Ólafsson þýddi hana prýðilega á íslensku, Bjargvætturinn í grasinu, heitir íslenska útgáfan.

 

ÁHAFNARMEÐLIMIR ENN

Áhafnarmeðlimir er lífseigt orð, sem Molaskrifara hefur aldrei þótt prýði að. Það kom við sögu í hádegisfréttum Bylgjunnar (08.08.2015), þegar sagt var frá áhöfn flugvélar, flugliðum, sem voru undir áhrifum áfengis, þegar fljúga skyldi frá Gardermoen í Noregi til Krítar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>