«

»

Molar um málfar og miðla 1771

AÐ OG AF

Góður vinur Molanna skrifar (11.08.2015) og vitnar í Pressuna (pressan.is)  daginn á undan: ,, „Einn lést og annar komst lífs af ,þegar lítil flugvél fórst á Tröllaskaga í dag. Sá sem komst lífs af er einn reyndasti og þekktasti flugmaður landsins. Umfangsmikil leit var gerð af flugvélinni þegar hún lenti ekki í Keflavík á tilskildum tíma, en hún hafði lagt af stað frá Akureyri eftir hádegi í gær. Vélin fannst svo í Barkárdal, skammt vestan við Akureyri í gær.”

Hann segir:,,Ég hef vanist því að maður leiti að einhverju en ekki af einhverju. Þetta er allt í einu allstaðar. Fólk virðist ekki hafa hugmynd um hvort eigi að nota og reynir ekki að komast að því heldur.” Þakka bréfið. Rétt athugað. Þessi villa veður upp í fjölmiðlum.

 

AÐ SIGRA KEPPNI

G.G. skrifaði Molum og segir:,,Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta:
HH dúettinum (Hallgrími og Huldu) í morgunútvarpi RÚV varð það á 10. ágúst 2015, hvoru á eftir öðru, að tuða um að tiltekinn einstaklingur hafi sigrað keppnina.  Ítrekað hefur verið minnt á, t.d. á eidur.is, að menn sigra ekki keppni, heldur vinna hana með því að sigra annan keppanda. einn eða fleiri. Hins vegar er hægt að sigra „í“ keppni. Ef starfsmenn RÚV geta ekki lært muninn á að sigra og vinna, þá á einfaldlega að banna þeim að nota sögnina að sigra. Undantekning er að þetta sé rétt með farið! RÚV á skv. lögum að vera fyrirmynd.”

Sjá: http://www.visir.is/article/20150723/FRETTIR01/150729633

Molskrifari þakkar G.G. bréfið.

ENN UM AÐILA

Talsmönnum lögreglunnar er undarlega tamt  að tala um aðila þegar verið er að tala um fólk. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (10.08.2015) var rætt við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra um flugslysið í Barkárdal, þar sem  einn maður lést en annar komst lífs af. Lögreglustjóri sagði , –  annar aðilinn var á lífi og með meðvitund. Hinn aðilinn var látinn.

Þetta  sífellda aðilatal er óþarft og sannast sagna fremur hvimleitt.

 

VIRÐING FYRIR MÓÐURMÁLINU

Það ber ekki vott  mikla virðingu fyrir móðurmálinu, þegar bæði formaður og þingflokksformaður  stjórnmálaflokksins Bjartrar framtíðar tala um kommbakk  (e. comeback)flokksins í útvarpi og sjónvarpi. Ekki var betra  að tala um að æðstu embætti flokksins  ættu að rótera. Fréttastofa  Ríkisútvarpsins át þetta svo hrátt eftir  þeim og talaði um  að stjórn  flokksins róteraði embættum, –  að  mannaskipti yrðu tíð. Fréttir eiga að  vera á góðu og skýru máli. Molaskrifari er alls ekki viss um að allir hlustendur hafi skilið hvað átt er  við með að  embætti róteri eða séu látin rótera.  Raunar skildi Molaskrifari formann Bjartrar framtíðar þannig í fréttum  Ríkissjónvarps, að þetta væri gert til að tryggja  að enginn með  reynslu væri í forystu flokksins.

 

FRÉTTIRNAR SETJA NIÐUR

Sjónvarpsfréttir setja  niður, þegar fréttamaður  stendur fyrir framan  myndavélina og  gleypir  verkjatöflu, – rétt eins og hann sé á  sviði í einhverju leikriti. Fréttin var um bakverki.  Annaðhvort er þetta leikaraskapur, barnaskapur eða bjánagangur, en sýnir þó kannski fyrst og fremst að yfirmenn á fréttastofu sinna ekki störfum sínum nægilega vel. Leikaraskapur af þessu tagi á ekki erindi í fréttir.

 

ÞAÐ SEM HELST HANN VARAST VANN ….

Í Molum 1769 gagnrýndi skrifari  notkun fréttabarns á  orðinu eftirmál í illa þýddri frétt á mbl.is.  Jafn oft  og Molaskrifari hefur vikið að ruglingi á eftirmála og eftirmálum þá varð honum þarna á í messunni í einhverri   aulafljótfærni. Notkun  orðsins  eftirmál er rétt í fréttinni. Beðist er   velvirðingar á þessu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>