«

»

Molar um málfar og miðla 1773

ÁHRIF FRÁ ENSKU.

Molavin skrifaði: ,,Morgunblaðið virðist hætt að nota orðið mótmælasvelti yfir þá fanga, sem neyta ekki matar síns í mótmælaskyni. Í dag, 13.08.2015 er talað um Palestínumann í haldi Ísraela, sem „hefur verið í hungurverkfalli…“ Hér eru bein áhrif úr ensku auðsæ; „hungerstrike“ er ekki verkfall.”. Skrifari þakkar bréfið og góða ábendingu. Kannski má segja um enskuna að hún geti verið ,lævís og lipur” svo vitnað sé til frægra orða.

 

LÁTAST EFTIR SLYS

Og enn skrifar Molavin (13.08.2015): ,, – „Manntjón eftir stórslys í Kína“ segir í fimm dálka fyrirsögn í Morgunblaðinu í dag, 13.8.2015. Hvað gerðist eiginlega eftir slysið sem olli þessum andlátum? Það færist í vöxt að tala um að fólk látist EFTIR slys í stað þess að segja að það hafi látist í slysi. Menn látast ekki eftir banaslys. Þeir láta lífið í slysi.” Kærar þakkir. Þetta er þörf og réttmæt athugasemd og hefur reyndar borið á góma í Molum áður. Fjölmiðlar hérlendis voru ótrúlega seinir að átta sig því hversu alvarlega sprengingin í Tianjin var. Kannski hafa fréttaskrifarar ekki áttað sig á því að þetta er fjórða stærsta borgin í Kína. Hafnarborg Peking.

 

MIKIÐ LIGGUR UNDIR

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (13.08.2105) var sagt vegna innflutningsbanns Rússa á íslenskar vörur: Mikið liggur undir fyrir íslenskan sjávarútveg. Ekki er þetta sérstaklega vel orðað. Betra hefði verið til dæmis: Mikið er í húfi fyrir íslenskan sjávarútveg.

 

KSÍ BORGAR EKKI

,,Við greiðum alfarið þennan kostnað”, sagði formaður Knattspyrnusambands Íslands um kostnað við lýsingu á Laugardalsvelli, en fjallað var um málið í íþróttafréttum Stöðvar tvö (12.08.2015). Hann bætti svo við: ,,En við erum alfarið studdir af UFEA”. KSÍ borgar því alfarið ekki neitt. Er það ekki rétt skilið? Útlendingar borga.

Dálítið einkennilegur málflutningur.

 

 

 

ÓSKILJANLEGT

Það er óskiljanlegt að Ríkisútvarpið, þessi þjóðarstofnun skuli komast upp með að auglýsa bjór alveg purkunarlaust, til dæmis í síðustu auglýsingu fyrir útvarpsfréttir, – aftur og aftur. Stundum á  ensku í þokkabót!

Þetta er skýrt lögbrot.

Menntamálaráðherra gerir ekki neitt.

Stjórn stofnunarinnar gerir ekki neitt.

Útvarpsstjóri gerir ekki neitt.

Er öllum sama?

Þetta hefur verið nefnt áður í Molum um málfar og miðla.

Nokkrum sinnum.

Hversvegna líðst Ríkisútvarpinu að brjóta lög landsins ?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammála þér Haukur. – ESG

  2. Haukur Kristinsson skrifar:

    Hungurverkfall er þó skömminni skárra en mótmælasvelti.

    Við greiðum allan kostnaðinn mætti einnig segja. Alfarið hefur aðra merkingu, finnst mér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>