«

»

Molar um málfar og miðla 1775

VIÐTENGINGARHÁTTUR

Vaxandi tilhneiging virðist til að nota viðtengingarhátt í fyrirsögnum þar sem betra væri að nota framsöguhátt. Dæmi af fréttavef Ríkisútvarpsins (17.08.2015): Rússar finni lítið fyrir þvingununum. http://www.ruv.is/frett/russar-finni-litid-fyrir-thvingunum

Eðlilegra og skýrara hefði verið að segja: Rússar finna lítið fyrir þvingununum.

 

SPENNIR KOMST Í REKSTUR

Ekki kann Molaskrifari að meta orðalag á mbl.is (17.08.2015),sem notað er í frétt um spenni sem bilaði og þurfti að taka varaspenni í notkun. Í fréttinni á mbl.is segir: ,, Flutn­ing­ur­inn gekk vel og var haf­ist handa við að skipta um spenni í Rima­kot­stengi­virk­inu í gær­morg­un. Það reynd­ist tölu­verð vinna en gekk vel og komst vara­spenn­ir­inn í rekst­ur um kl. 20 í gær­kvöldi.” Komst spennirinn ekki í gagnið, var hann ekki tekinn í notkun, eða tengdur? Hálf ankannalegt að tala um rekstur í þessu sambandi. Kannski er það sérviska.

 

LITLU NÆR

Molaskrifari játar eftir að hafa hlýtt á langt viðtal (17.08.2015) um vandamál heimilislausra í Reykjavík við formann Velferðarráðs borgarinnar, að hann er ákaflega litlu nær.

Að hluta virtist tilefni viðtalsins vera að kynna leiksýningu í Herkastalanum á Menningarnótt með þátttöku heimilislausra.

Það var svo sem ágætt.

 

AÐ LESA OG HLUSTA

Sjálfsagt flokka margir það undir mismæli, þegar þrautreyndur þulur í hádegisfréttum Ríkisútvarps (17.08.2015) talar um íslenska þjóðfélagið sem 330 manna samfélag. Molaskrifari hallast þó ekki að því að kalla þetta mismæli. Heldur skort á einbeitingu. Þulurinn er ekki að hlusta á það sem hann les. Þetta þekkir Molaskrifari af eigin raun. Það er óþægileg tilfinning að gera sér allt í einu grein fyrir því að maður veit eiginlega ekkert hvað maður var að lesa. Þetta hygg ég að flestir fréttaþulir hafi fengið að reyna. Aldrei má slaka á einbeitingunni. Aldrei hætta að hlusta.

 

 

HÚS ÚR TRÉI!

Svo kemur hér í lokin endemisfrétt af pressan.is (16.08.2015). Þar er þetta gullkorn: ,, Húsið er byggt úr tréi og því er mjög erfitt fyrir slökkviliðsmenn að slökkva eldinn.”

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/eldur-i-aldagomlu-hverfi-i-svithjod–ein-latin

Það var og.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>