«

»

Molar um málfar og miðla 1782

 

AÐILAR OG EINSTAKLINGAR

Molavin skrifaði: ,,Baráttan við klúðursyrðin aðila og einstakling er löng og ströng. Þessi orð eiga sjaldnast við í fréttum, rétt eins og dæmið í Vísi í dag (26.8.2015): „Nítján ára karlmaður gaf sig fram við dönsku lögregluna í morgun og viðurkenndi að hafa ráðið þremur einstaklingum bana á bóndabæ við Gandrup á Norður-Jótlandi. Maðurinn er sagður hafa tengsl við fólkið, sem voru hjón og sonur þeirra.“ Semsagt: Maðurinn varð fjölskyldu að bana. Einfalt og skýrt mál er fallegast og skiljanlegast”.

Kærar þakkir, Molavin. Við höldum baráttunni áfram. En rétt er það; hún er löng og ströng.

 

ÞESS BER AÐ GETA ….

Það er ástæða til að árétta að Ríkissjónvarpið hefur tekið á sig á og sýnir nú fleiri, nýjar og vandaðar heimildamyndir og fréttaskýringaþætti en áður; þætti um sögu og samtímaviðburði. Það er lofsvert. Til skamms tíma var engu líkara en efni af þessu tagi væri á svörtum lista. Myndirnar hans Davids Attenboroughs eru fínar, oft hrein listverk úr náttúrunni, en eins og annað eiga myndir hans að koma í hæfilegum skömmtun.

 

ÞANÞOL ÞOLINMÆÐINNAR

Það kemur fyrir í bílnum á morgnana, að Molaskrifari opnar fyrir símatíma Útvarps Sögu. Þanþol þolinmæðinnar til hlustunar varir þó aðeins fáeinar mínútur. Yfirleitt er þar sama fólkið að ræða það sama.

Á miðvikudagsmorgni (26.08.2015) hringdi maður til stjórnanda þáttarins, sem er ,fyrir utan útvarpsstjórann helsti talsmaður stöðvarinnar. Sá sem hringdi sagði frá því, að hann hefði átt á fara í krabbameinssprautu í mars en ekki getað það fyrir fátæktar sakir, – sem er þessu ríka samfélagi til háborinnar skammar.
Þá spurði stjórnandinn: Hvers vegna þurftirðu að fara í krabbameinssprautu?

– Af því að ég er með krabbamein. svaraði maðurinn.

Molaskrifari er á því, að þarna hafi verið slegið nýtt met. Ætlar samt ekki að segja meira um það. Var þá líka fullreynt á þanþol þolinmæðinnar. Og snúið aftur til Rondós Ríkisútvarpsins FM 87,7 þar sem ævinlega er áheyrileg tónlist.

 

RÁÐHERRA SVARAÐI EKKI

Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (27.008.2015) Var Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra spurð í beinni útsendingu hvort við Íslendingar ættum ekki að taka við fleiri flóttamönnum í ljósi þess sem aðrar þjóðir væru að gera. Ráðherra bar ekki við, reyndi ekki, að svara spurningunni. Talaði út og suður um hvernig flóttamönnum við tækjum við. Það á ekki að láta ráðherra komast upp með að svara alls ekki því sem um er spurt. Gerist því miður of oft.

 

GARGIÐ

Eins og flestir lessendur Molanna sjálfsagt vita, er Molaskrifari ekki einlægur aðdáandi boltaíþrótta í sjónvarpi og finnst Ríkissjónvarpið gera þeim of hátt undir höfði. Hann horfir hinsvegar stöku sinnum , þegar verið að keppa í frjálsum íþróttum, og spyr því enn og aftur: Hvers vegna þarf sá sem lýsir að garga á okkur sem heima sitjum? Garga eins og hann sé búinn að glata glórunni? Molaskrifari bregður stundum á það ráð að horfa á viðburðina í erlendum stöðvum þar sem lýsendur kunna sér hóf og sýna þeim sem heima sitja meiri kurteisi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Samþykkt.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Slá menn nýtt met? Ég hef hingað til álitið, og er styrktur í þeirri trú af máltilfinningu minni, að menn slái gömul met með því að setja ný.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>