«

»

Molar um málfar og miðla 1803

 

RAUÐI KROSSINN SLETTIR

Rauði krossinn á Íslandi slettir á okkur ensku í sjónvarpsauglýsingu

og segir VERTU NÆS. Hversvegna talar Rauði kross Íslands ekki íslensku við Íslendinga?   Þetta er ekki til eftirbreytni. Ráðamenn hjá Rauða krossinum ættu að sjá til þess að þessu verði breytt. Þetta er Rauða krossinum ekki til sóma.

Meira um slettur: Blaðamaður á visir.is spyr (25.09.2015): En, varðandi það þegar skorað er á auglýsendur að sniðganga ykkur; bocott? Það hlýtur að mega heita högg? Blaðamaður þykist þarna vera að nota enska orðið boycott, en kann ekki að stafsetja það. Það er líka allsendis óþarft innskot og bætir engu við, nema  sýna okkur að blaðamaðurinn er slakur enskumaður.

Í fréttum Stöðvar tvö þetta sama kvöld talaði fréttamaður um kommbakk og skaut inn ókei, sem reyndar hefur heyrst áður. Fréttamenn eiga að vanda málfar sitt.

 

LANDFLÓTTA RITHÖFUNDUR

Úr frétt á mbl.is (24.09.2015): ,,Reykja­vík­ur­borg hef­ur nú tekið á móti land­flótta rit­höf­undi frá Kúbu og veit­ir hon­um skjól­borg þar sem hon­um er tryggður ör­ugg­ur dval­arstaður og efna­hags­legt ör­yggi, …” Þetta er áreiðanlega hið besta mál. En hvað er skjólborg? Er ekki verið að búa manninum skjól, öruggt athvarf , griðastað og greiða honum laun? Sýnist það. Skjólborð voru á vörubílspöllum í gamla daga, mishá og mátti taka af. Nú vita sennilega aðeins elstu menn hvað skjólborð voru.

Seinna í fréttinni segir: ,, Í frétt Reykja­vík­ur­borg­ar seg­ir að árið 2013 varð hann að yf­ir­gefa land sitt og síðan þá hef­ur hann haldið fyr­ir­lestra í mörg­um banda­rísk­um há­skól­um um fé­lags­leg­ar aðgerðir á Kúbu, um borg­ara­legt sam­fé­lag og rit­skoðun bók­mennta af hálfu kúbverska rík­is­ins.” Hér málfræðin ekki alveg í samræmi við tilfinningu Molaskrifara. Hann er á því að þarna hefði átt að standa: ,,Í frétt Reykjavíkurborgar segir að árið 2013 hafi hann orðið að yfirgefa land sitt og hafi síðan haldið fyrirlestra …….”

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/24/landflotta_rithofundur_faer_skjol/

 

 

RAMMINN

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (25.09.2015) var fjallað um fjárveitingar til Landspítalans. Þannig var tekið til orða að til þess væri ramminn of naumt skorinn. Rammar eru ekki skornir. Eðlilegra hefði verið að tala um að til þess væri rammminn of þröngur.

 

FAGSTÝRA?

Úr frétt á mbl.is (24.09.2015): ,,… seg­ir Þor­gerður Agla Magnús­dótt­ir, fag­stýra Miðstöðvar ís­lenskra bók­mennta, sem stödd er á hátíðinni”. Þetta er úr frétt um bókmenntahátíðina í Gautaborg. Molaskrifari játar að hann skilur ekki orðið fagstýra. Dugað hefði að segja að þessi kona væri á hátíðinni, frekar en að hún væri stödd á hátíðinni. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/24/strunsudu_ut_af_bokamessunni/

 

SKAFIÐ AF RÚÐUM

,,Íbúar á höfuðborgarsvæðinu sem voru snemma á ferð í morgun þurftu margir að skafa af bílum sínum á leið sinni til vinnu.” Þetta er ekki mjög vel orðað. Átt er við að ökumenn hafi þurft að skafa hrím af rúðum bíla sinna áður en þeir óku af stað til vinnu í morgun (24.09.2015). Hitt hefði ekki leitt til aukins öryggis í umferðinni!

http://www.visir.is/hofudborgarbuar-thurfa-ad-grafa-upp-skofuna/article/2015150929396

 

AÐ STÍGA TIL HLIÐAR

Boehner stígur til hliðar, sagði í fyrirsögn á mbl.is (25.09.2015). Þetta er aulaþýðing úr ensku, step aside. John Boehner for­seti full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings ætlar að hætta þátttöku í stjórnmálum. Draga sig í hlé. Hætta.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/09/25/boehner_stigur_til_hlidar/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>