«

»

Molar um málfar og miðla 1811

KISTUBERI?

Í frétt á mbl.is (10.10.2015) er sagt frá útför leikkonunnar Catrhriona White. Sagt var í fyrirsögn, að kærasti hennar, Jim Carrey, hefði verið kistuberi. Jim Carrey var kistuberi. Molaskrifari kannast ekki við orðið kistuberi. Aldrei heyrt það. Sá sem samdi fyrirsögnin hefur sennilega ekki þekkt orðið líkmaður, – maður sem ber kistu við jarðarför. Eða fundist orðið óviðurkvæmilegt.

http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/10/10/jim_carrey_var_kistuberi/

 

ÓVIÐUNANDI

Það er óviðuandi í nútímaþjóðfélagi, þegar ráðherra ítrekað neitar að svara spurningum fjölmiðla um óþægileg mál, sem honum tengjast. Ekki batnar það, þegar hann mismunar fjölmiðlum. Velur sér einn fjölmiðil til að svara þeim spurningum, sem honum hentar að svara. Og svo koma allskonar furðulegar eftiráskýringar!

Vafasamt er að ráðherrar í grannlöndum okkar kæmust upp með slíka framkomu. Hversvegna hélt ráðherra ekki blaðamannafund þar sem allir fjölmiðlar sátu við sama borð?

Sennilega væri ráðherra í sömu stöðu og menntamálaráðherra okkar nú er löngu horfinn úr embætti í grannlöndum okkar. En er ekki sagt að sinn sé siður í landi hverju?

 

TIL BÓTA

Breytingarnar á morgunþáttum Ríkisútvarpsins á báðum rásum frá klukkan sjö fram til níu eru til mikilla bóta. Ekki er lakara að fá meiri tónlist. Báðir þættirnir áhugaverðir og ýmislegt hnýsilegt á boðstólum. Það var skynsamlegt að viðurkenna í verki að tilraunin með sama þáttinn á báðum rásum, Morgunútgáfuna, mistókst.

 

ENGIN STAFSETNINGARORÐABÓK?

Stafsetningarkunnátta og stafsetningarorðabók voru greinilega ekki til staðar þegar þessi frétt var skrifuð og fyrirsögn samin á visir.is (09.10.2015)

Borgarísjakar í minni Önundarfjarðar. Enginn yfirlestur, ekki frekar en fyrri daginn.

Eitt er minni. Hann hefur gott minni. Er minnugur. Annað er mynni. Fjarðarmynni. Þar sem fjörðurinn opnast mót hafi.

http://www.visir.is/borgarisjakar-i-minni-onundarfjardar/article/2015151008701

 

DÁLÍTIÐ SKRÍTIÐ

Á föstudag (09.10.2015) tilkynntu margir lögreglumenn víðsvegar á landinu að þeir væru veikir og gætu ekki mætt til vinnu. Lögreglumenn eiga í harðri kjarabaráttu við ríkið , hafa ekki verkfallsrétt en hafa gripið til ýmiskonar mótmælaaðgerða. Þegar rætt var við formann Landssambands lögreglumanna í morgun fréttum kom hann af fjöllum og kvaðst ekkert hafa heyrt af þessum aðgerðum félaga sinna. Sjálfsagt hafa ýmsir dregið þá ályktun að formaðurinn sé ekki í mjög góðu sambandi við félagsmenn sambandsins.

Þetta rifjaði upp í huga Molaskrifara kjarabaráttu starfsmanna Ríkissjónvarps (sem höfðu ekki verkfallsrétt) og fóru í nokkurra daga ,,veikindaverkfall” á fyrstu árum sjónvarpsins. Það snerist ekki um prósentuhækkanir heldur ýmis mál, sem kalla mætti innanhússmál. Hann kom nokkuð við sögu þá sem formaður starfsmannafélagsins á þeim tíma. Var  þokkalega upplýstur um heilsufar félagsmanna! Við vorum með bréfi beðin um að skila læknisvottorðum. Ég sagði: Við biðjum ekki lækna að ljúga fyrir okkur. Enginn skilaði læknisvottorði. Svo vorum við auðvitað hýrudregin um næstu mánaðamót.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>