«

»

Molar um málfar og miðla 1824

 

GANGA EFTIR

Úr frétt á stundin.is (26.10.2015) um vigtarskekkjur hjá Bónus:,, ,,Verslanir eigi að vera með löggild mælingartæki og Neytendastofa gangi á eftir því að þau séu það.” Hér hefði átt að standa: ,, … og Neytendastofa gangi eftir því að þau séu það”. Ekki gangi á eftir því. Neytendastofa á að fylgjast með því að vogir og önnur mælitæki hafi löggildingu og mæli rétt. Erfitt er fyrir viðskiptavini að verjast vigtarskekkjum eða svindli af þessu tagi.

 

FLEST BRESTUR Á

,,Á morgun brestur á með Norðurlandaráðsþingi hér í Hörpu”, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (26.10.2015). Þegar brestur á með fundum eins og þingi Norðurlandaráðs má eiginlega segja að flest bresti nú á! Kannski átti þetta að vera fyndið.

 

SKYNSAMA LEIÐIN

Umsjónarmaður í morgunútvarpi Rásar tvö (27.10.2015) talaði um skynsömu leiðina. Nokkuð algengt að heyra orðalag svipað þessu. Leiðir eru ekki skynsamar. Leiðir geta verið skynsamlegar. Svo var líka talað um veðurlingó, – orð um veður.  Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar. Líka Rás tvö.

 

AÐ TÆKLA FRAMTÍÐINA

Það hefur áður verið nefnt hér, að fréttaborðinn, sem birtist á skjánum í fréttum Stöðvar tvö er ágæt nýjung. Margar erlendar stöðvar eru með svona fréttaborða, sem rennur yfir skjáinn. En það er betra að eitthvert vit sé í því sem þarna er skrifað. Á miðvikudagskvöld (28.10.2015) stóð á borðanum: Búist er við að Cameron muni tækla framtíð Bretlands í ESB í heimsókn sinni til Íslands. Hvað þýðir þetta?

Sögnin að tækla er enskusletta sem fótboltafréttamönnum er töm um að ná knettinum frá mótherja. En hvað þýðir slettan í þessu samhengi?

 

EKKI FRÁ BANDARÍKJUNUM

Þegar Winston Churchill kom hingað til lands í ágúst 1941 var hann ekki að koma frá frá Bandaríkjunum eins og sagt var í fréttum Stöðvar tvö (28.10.2015). Hann var að koma af fundi með Franklin Delano Roosevelt, forseta Bandaríkjanna. Fundurinn fór fram um borð í bandaríska herskipinu Augusta á Placenta flóa við Nýfundnaland. Þar sömdu þeir  tímamótaplagg, Atlantshafssáttmálann, Atlantic Charter https://en.wikipedia.org/wiki/Atlantic_Charter#Origin

 

SIR ALEC DOUGLAS HOME

Sú var tíðin, að fréttamenn útvarps voru með það á hreinu hvernig bera átti fram nafn þessa breska forsætisráðherra. Þetta skolaðist til í fréttum Ríkissjónvarps (28.10.2015).Ekki nema von, því framburðurinn er óvenjulegur og þetta nafn er ekki í fréttum á hverjum degi lengur.. Sjónvarpið kallaði hann Alec Douglas /hóm/. Réttur framburður er hinsvegar: Alec Douglas /júm/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>