TRÉKOL
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (04.11.2015) var talað um trékol. Var ekki verið að tala um það sem við köllum viðarkol á íslensku? Á norsku er talað um trekull. Molaskrifari gat ekki skilið fréttina á annan veg.
AÐ FORSELJA
Úr undirfyrirsögn í Fréttablaðinu (04.11.2015): ,,Von er á 50 rafjeppum til landsins sem flesta er búið að forselja”. Er ekki bara verið að segja okkur að von sé á 50 rafjeppum sem flestir séu þegar
seldir?
AUSTUR Á LAND
Molaskrifari hyggur að málvenja sé að tala um að fara austur á land, þegar farið er austur á firði eða austur á Hérað. Í fréttum Ríkisútvarps kl. 14 00 á miðvikudag var sagt að sérfræðingar Veðurstofunnar væru á leið austur á land til að athuga aðstæður. Þeir voru á leiðinni austur að Dyrahólaey til að skoða aðstæður vegna hruns sem orðið hefur ofan við fjöru sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Dyrahólaey er á Suðurlandi.
AÐ SKIPTA UM HENDUR
Í fréttum Stöðvar tvö (04.11.2015) sögðu bæði fréttamaður og forstjóri Kauphallarinnar að 31 milljarður hefði skipt um hendur í Kauphöllinni í dag. Hafa milljarðar hendur? Molaskrifara gengur illa að sætta sig við þetta orðalag, sem sumum virðist ákaflega tamt. Var ekki verið að segja okkur að viðskipti dagsins hefðu numið 31 milljarði ?
AÐ SUNNAN
Molaskrifari horfði í gær (05.11.2015) á prýðilegan þátt á sjónvarpsstöðinni N4, Að sunnan. Í þættinum var meðal annars rætt við Steinar Magnússon, sem var að láta af störfum sem skipstjóri Herjólfs eftir farsælan feril og eftir að hafa starfað hjá Eimskipafélaginu í meira en hálfa öld.
Þar kom einu sinni enn rækilega fram, að þeir sem ráða fjármálum og framkvæmdum, gefa ekkert fyrir hugmyndir og tillögur skipstjórnarmanna á Herjólfi um hvernig standa eigi að því að bæta skilyrðin í Landeyjahöfn. Hundsa þá sem best þekkja til og gerst vita. Módelsmiðirnir eru sjálfsagt ágætir. En skyldu sjómennirnir ekki vita betur, sem daglega fást við sjólag og strauma í Landeyjahöfn?
Í FÓTSPOR POPPGOÐSINS
Var það rétt skilið, að Ríkissjónvarpið hefði gert út leiðangur í fótspor poppgoðsins Justins Biebers að Fjaðrárgljúfri (04.11.2015)? Vart var unnt að skilja fréttina á annan veg. Og svo er sífellt kvartað undan peningaleysi. Er það ekki slök stjórnun, sem er vandamálið í Efstaleiti?
KLISJA
Ofnotaðasta orðtak íslenskunnar um þessar mundir er að vinna hörðum höndum að einhverju. Þetta heyrist og sést í fréttum næstum í hvert einasta skipti sem sögnin að vinna er notuð.
Orðið dálítið þreytandi.
VONBRIGÐI
Stöð tvö olli Molaskrifara vonbrigðum í gærkvöldi (05.11.2015). Engin bein fréttaútsending frá Reykjavíkurhöfn!
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
06/11/2015 at 12:56 (UTC 0)
Rétt. Hnaut einnig um þetta.
Kristján skrifar:
06/11/2015 at 10:15 (UTC 0)
Já, algjört kæruleysi að hálfu Stöðvar 2. vegna sanddæluskipsins. Sem betur fer var þetta í beinni útsendingu á CNN.
Í sjónvarpsfréttum í gær var fjallað um flugvélina sem fórst á Sínaískaga. Fréttamaður las: „Síanískagi“. Þetta endurtók hún í seinni fréttum. Engin virðist hafa bent henni á mistökin. Allir fréttamenn ættu nú að kannast við Sínaí.