«

»

Molar um málfar og miðla 1832

FRÁ VESTURBÆINGI – Í REYKJAVÍK

Vesturbæingur skrifaði (07.11.2015): ,,Á fréttamáli tekst engum lengur neitt, heldur er sagt,- slökkviliðið náði að kæfa eldinn, hann náði að gera þetta og náði ekki að gera hitt, þegar honum tókst þetta og tókst hitt ekki.

Frá útlöndum er gjarna sagt, að forseti eða ráðherra hafi verið hvattur til þessa eða hins. Oft hygg ég, að nær væri að segja, að lagt hafi verið að manninum.

Mannanöfn í útlöndum

Ég opnaði Útvarpið um daginn og heyrði forvitnilegt efni úr samtali manns við fréttastofu. Ég var forvitinn um hver hann væri. Sagt var: Ásbjörn segir að neysla á síld hafi ekki dregist mikið saman. Svo var sagt: Ásbjörn segir það koma til greina. Af nafninu mátti ætla, að maðurinn væri íslenskur. Ég fann fréttina síðar í heild. Samtalið reyndist vera við norskan embættismann, Asbjørn Warvik Rørtveit. Asbjørn, sem má mín vegna verða Ásbjörn í Útvarpinu, er nafn, sem hjálpar manni ekki, ef maður vill kynna sér efnið frekar. Warvik Rørtveit. er nafnið, sem maður þarf, hið opinbera nafn mannsins. Asbjørn er til notkunar innan fjölskyldu og meðal nákunnugra. Þetta er allt of algengt meðal fréttamanna, að þrýsta íslenskri nafnvenju á útlendinga.”

Kærar þakkir fyrir bréfið.

 

FÉKK SÍNU FRAM

Af vef Ríkisútvarpsins (06.11.2015): ,,Húsafriðunarnefnd fékk sínu fram þegar mennta-ogmenningarmálaráðuneytið friðaði innra byrði hússins.” Hér hefði að mati Molaskrifara átt að segja: ,, Húsafriðunar nefnd fékk sitt fram, þegar ….”. Skoðun Húsafriðunarnefndar varð ofan á, þegar ….

 

FLUGFERÐIR SNERU VIÐ

Af mbl.is (06.11.2015): ,, Fjöl­marg­ar flug­ferðir á leið til Egypta­lands, til þess að sækja breska strand­arglópa á ferðamannastaðinn Sharm el-Sheikh, hafa snúið við” Fréttabörnin voru mætt á helgarvaktin strax á föstudagskvöld. Flugferðir sneru ekki við. Flugvélar sneru við. Eða var snúið við. Þetta er rétt í fyrirsögn.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/11/06/thotur_a_leid_til_egyptalands_sneru_vid/

 

MEINLAUST

Það er svo sem allt lagi með þátt Gísla Marteins (,,á jákvæðum og uppbyggilegum nótum” eins og sífellt er tönnlast á í dagskrárkynningum) á föstudagskvöldum. Skilur kannski ekki mikið eftir, yfirleitt er þetta meinlaust mas. Andri Snær og tónlistin var bitastæða efnið í föstudagsþættinum (06.11.2016). Flutt var langt viðtal á ensku í þættinum. Engin tilraun gerð til að þýða eða endursegja. Stjórnandinn þarf að gæta sín á slettum, – ,, performans” og ,,þú ert ekki að plögga neinni bók!”

 

EKKI TIL FYRIRMYNDAR

Eftirfarandi málsgrein er úr íþróttafrétt á vefsíðu Ríkisútvarpsins (07.11.2015): ,,Englandsmeistarar Chelsea hefur gengið afleitlega á tímabilinu – liðið hefur tapað sjö leikjum af tólf og aðeins unnið þrjá – síðasti sigurleikur liðsins kom gegn Aston Villa um miðjan síðasta mánuð”. Hvað getur maður sagt? Svo sem ekki annað en það, að þarna valsar einhver eftirlitslaus við opin lyklaborð í Efstaleiti. Einhver sem þarf aðhald og eftirlit. Verkstjórn virðist ábótavant á fréttastofu. http://www.ruv.is/frett/stoke-sidasti-naglinn-i-kistu-mourinho

 

HRESSILEGT MORGUNÚTVARP

Það var kraftur í morgunútvarpi Rásar tvö í morgun (10.11.2015). Enn talaði annar umsjónarmanna um lingó , – gott ef málfarsráðunautur var ekki líka við hljóðnemann. Slettur eru þarna of algengar. Ekki víst að allir hlustendur viti hvað þetta lingó er.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>