«

»

Molar um málfar og miðla 1848

ÁRSGRUNDVÖLLUR OG FLEIRA

Rafn skrifaði (01.12.2015): ,,Sæll Eiður

,,Meðfylgjandi er fyrri hluti fréttar úr Netmogga, þar sem kemur fram að í kjölfar þeirra viðskipta, sem um er rætt, aukist velta félags „um 85 millj­ón­ir króna á ári og EBITDA fé­lags­ins um sex­tán pró­sent á árs­grund­velli.

Hvað sem um ársgrundvallarskrípið má segja, þá sé ég ekki að hundraðshlutahækkun geti verið breytileg eftir lengd viðmiðunartíma hjá fasteignaleigu með stöðugan rekstur, þótt annað geti átt við sveiflukenndan rekstur, t.d. útgerð fiskiskipa, sem getur verið með afar breytilega afkomu á mismunandi tímum árs.”

Molaskrifari þakkar Rafni bréfið. Hér er fréttin: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/11/30/kaupa_vikurhvarf_3_fyrir_taepan_milljard/

 

FYRIR RANNSÓKN MÁLS

Þetta orðalag sér maður aftur og aftur í fjölmiðlum (14.12.2015):,, Maður­inn var vistaður í fanga­geymslu fyr­ir rann­sókn máls.” Eðlilegra hefði verið að segja: Maðurinn var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/14/i_vimu_a_stolnum_bil_og_vopnadur/

Þetta hefur svo sem verið nefnt hér áður, en aldrei er ……

 

ÚR FRÉTTUM STÖÐVAR TVÖ

Í fréttum Stöðvar tvö (14.12.2015) var sagt: ,, … í kosningum eftir kosningum”. Átt var við í hverjum kosningunum á fætur öðrum. Einnig hefði mátt segja:,, … í kosningum eftir kosningar”.

Í sama fréttatíma var talað um það sem kalla mætti Star Wars æði. Þá sagði fréttamaður: ,, …. foreldrar eru áhugasamir um að kynna börn sín þessu fyrirkomulagi”. Eðlilegra og betra hefði að tala um að kynna þetta fyrirkomulag fyrir börnum sínum. Kynna börnum sínum þetta fyrirkomulag. Nokkuð algengt að heyra rugling af þessu tagi.

 

FAÐIR UM FÖÐUR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (14.12.2015) var talað um albönsku fjölskyldurnar sem sendar voru úr landi . Þá var sagt: ,, … vinnuveitandi föðurs þeirra…” Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=fa%C3%B0ir

Málfarráðunautur ætti ef til vill að leiðbeina fréttamönnum um notkun þessa ágæta vefseturs Árnastofnunar, beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

 

AÐ SVARA UM HÆL

,, … svaraði hann á hæl”, var sagt í þættinum Fólk og fræði, Völundarhús Borgesar í Ríkisútvarpinu á laugardagskvöld (12.12.2015). Hér hefði fremur átt að segja: .. svaraði hann um hæl, svaraði hann samstundis.

 

VERTU NÆS!

Rauði Kross Íslands heldur áfram auglýsingaherferð sinni í sjónvarpi, þar sem okkur er sagt að vera NÆS. Molaskrifari reyndi að hafa samband við Rauða Krossinn á mánudag (14.12.2015) til að koma á framfæri athugasemdum við þessu ósmekklegu og óþörfu enskuslettu. Hversvegna þarf þetta líknarfélag að biðla til okkar með slettu ?

Skemmst er frá því að segja, að enginn var til staðar síðdegis á mánudag í höfuðstöðvum Rauða krossins til að taka við athugasemd skrifara. Skildi eftir boð á símsvara og símanúmer. Engin viðbrögð. Hafði ekki geð í mér til þess að reyna að ná sambandi við Rauða krossinn daginn eftir.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>