«

»

Molar um málfar og miðla 1852

UNDARLEG HLUSTUN
Molavin skrifaði (21.12.2015): „Vísir heyrði ofan í þennan unga mann, sem býr á Suðurlandinu og er rétt liðlega tvítugur.“ Svo skrifar blaðamaðurinn Jakob Bjarnar á Vísi 21.12.2015. Það er erfitt að ímynda sér hvernig sú hlustun hefur farið fram!

Þakka bréfið, Molavin. Já, það er ekki auðvelt að ímynda sér hvernig þessi hlustun hefur verið í reynd !

 

ENSKAN Á RÁS TVÖ – TAKE IT AWAY , STELPUR

Enn viðgangast óþarfar og eiginlega óþolandi (að dómi Molaskrifara) enskuslettur í morgunútvarpi Rásar tvö. Á mánudagsmorgni komu þangað tvær ungar tónlistarkonur,sem ætla að halda tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík. Þær voru að sjálfsögðu kallaðar góðir gestir, eins og allir sem koma fram í útvarpsþáttum. Konan sem ræddi við þær sagði, að önnur væri sprenglærður píanóleikari, en hin sprenglærð söngkona, – orðgnóttin yfirþyrmandi! Báðar örugglega vel menntaðar. Þegar viðtalinu lauk, sagði dagskrárgerðarkonan: Take it away, stelpur! Þær áttu sem sagt að hefja flutning lagsins,sem þær fluttu með glæsibrag.

En hvað á það að þýða að sletta á okkur ensku í íslensku Ríkisútvarpi? Er konan að sanna okkur hvað hún hafi enska tungu vel á valdi sínu. Ef hún ræður ekki við að tala móðurmálið, ætti hún að leita sér að annarri vinnu, eða Ríkisútvarpið að finna henni önnur verkefni. Lesendur geta hlustað á þetta hér: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/morgunutvarpid/20151221

Hefst á 46:30 eða þar um bil.

Vond vinnubrögð. Að ekki sé meira sagt.

 

HEIMSMEISTARAR
Ísland eignaðist heimmeistara í handbolta í dag …, var sagt í fréttayfirliti Stöðvar tvö á sunnudagskvöld (20.12.2015). Norska kvennalandsliðið í handbolta sigraði lið Hollendinga í dag og urðu Norðmenn þar með heimsmeistarar. Þjálfari liðsins er íslenskur. Þórir Hergeirsson.

Var einhver að tala um þjóðrembu?

 

 

STÆRSTA MYNDARÖÐIN

Dagskrárkynningar Ríkissjónvarpsins eru stundum dálítið einkennilegar, – undarlega orðaðar. Nú er okkur sagt frá einni stærstu leiknu sjónvarpsmyndaröð …. (Ófærð). Hvað er stór myndaröð? Molaskrifari áttar sig ekki alveg á því.  Hvað er stór myndaröð?

 

REIÐHJÓLAMAÐUR

Af mbl.is (21.12.2015):,, Lokað var fyr­ir um­ferð um Ártúns­brekk­una til aust­urs á sjö­unda tím­an­um í morg­un vegna mjög al­var­legs slyss þar en ekið var á reiðhjóla­mann.” Ekið á reiðhjólamann? Hvað varð um hið ágæta orð hjólreiðamaður? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/21/buid_ad_opna_artunsbrekku/

Sorglegt að heyra, að þarna skuli hafa orðið banaslys. Þau eru orðin mörg í umferðinni í ár. Við þurfum að líta í eigin barm.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Jón skrifar:

    Stundum má gúggla til frekari glöggvunar!

    https://www.google.is/?gws_rd=ssl#q=%22heyra+ofan+%C3%AD%22&start=20

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>