DÝR RÁÐHERRA
Á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu (22.01.2016) er fyrirsögn á frétt: Ákvörðun ráðherra var dýr. Hæstiréttur Íslands hafði dæmt íslenska ríkið til að endurgreiða þremur fyrirtækjum oftekin gjöld upp á hálfan milljarð. Gjöldin voru vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum. Í öðrum miðlum hefur komið fram að langtum fleiri fyrirtæki kunni að eiga rétt á endurgreiðslum frá ríkinu af þessu sama tilefni. Kannski samtals einn og hálfan milljarð eða svo.
Það sem er athyglisvert við fréttina er að nafn hins dýra ráðherra kemur hvergi fram.
Er þetta ekki enn eitt dæmið um hvernig ríkisvaldið purkunarlaust notar staðnað og úrelt verndarkerfi landbúnaðarins til að beita neytendur ofbeldi. Hefur enginn stjórnmálaflokkur kjark til að breyta þessu?
VEÐURSKRIF
Vonandi eru blaðamenn ekki hættir að geta skrifað um veðurfar á sæmilegri íslensku? Frétt á mbl. is ( 22.01.2016) undir fyrirsögninni Lamandi stormur í vændum hófst svona: ,, Mikill stormur er á leiðinni upp að austurströnd Bandaríkjanna og er búist við að honum fylgi mikil snjókoma meðal annars í höfuðborginni Washington. Reiknað er með um 60 cm snjólagi innan fárra klukkustunda eftir að stormurinn skellur á í kvöld. Viðvörun um storminn, sem sagður er hugsanlega hafa lamandi áhrif á samgöngur, var send út í dag á svæðum þar sem samtals yfir 50 milljónir manna búa.”
Á fréttavef BBC var sagt: ,,More than 50 million people have been warned of a „potentially paralysing storm“ late on Friday that will bring 24in (60cm) of snow within hours.” Þar var líka talað um snowstorm og blizzard, – ekki bara storm eins og á mbl.is
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/22/lamandi_stormur_i_vaendum/
VANDI
Í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (23.01.2016) var sagt: ,, Stoðkerfis- og geðrænir vandar hafa á sama tíma …”. Við þetta er það að athuga að orðið vandi er eintöluorð. Það er ekki til í fleirtölu. Líklega gætir vaxandi tilhneigingar til að nota nafnorð í fleirtölu, sem eingöngu eru til í eintölu. Maður,sem rætt var við í morgunþætti Rásar tvö (25.01.2016) sagði,, … því fleiri menntunir ….” Hann átti við, – því fleiri háskólagráður …
KÖKUFORM TIL LEIGU
Í fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (23.01.2016) var fjallað um þá nýjung í starfi bóksafnsins á Selfossi að leigja fólki kökuform. Fréttamaður sagði: ,, …. kökuformin sem fólk kemur til að leigja út”. Fólk kemur ekki á bókasafnið til að leigja út kökuform. Fólk kemur á bókasafnið til að nálgast kökuform, sem safnið leigir út.
HVERSVEGNA ÞAGÐI KSÍ?
Á baksíðu DV ( sem troðið er inn til manns, þrátt fyrir uppsögn á áskrift) er haft eftir formanni Knattspyrnusambands Íslands í fyrirsögn á baksíðu um alþjóðlega fótboltaspillingu: Spilling var á allra vitorði í tvo áratugi. Hversvegna þögðu Íslendingar? Hversvegna þagði KSÍ?
Es. Inni í þessu blaði er svokallað,,Kynningarblað”, sem er stútfullt af greinum sem sennilega er borgað er fyrir að birta. Sömu sögu er að segja um Fréttatímann. Það er ekki endilega auðvelt fyrir alla að greina milli ritstjórnarefnis og efni sem greitt er fyrir að birta. Þetta gildir reyndar um fleiri blöð. Miður heppileg þróun.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar