«

»

Molar um málfar og miðla 1874

 

ÞÖRF FYRIR EITTHVAÐ

Í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (23.01.2016) var fjallað um fjölgun bálfara. Þar var sagt ,: ,,… hægt hefur á þörfinni fyrir nýju landi undir kirkjugarða.” Þetta hefði mátt orða betur. Til dæmis með því að segja: Þörfin fyrir nýtt land undir kirkjugarða vex nú

hægar en áður.

 

AIRBUS OG BOEING

Í fjögur fréttum Ríkisútvarps á sunnudag (24.01.2016) var sagt frá því að Íranar ætluðu að kaupa 114 farþegaþotur frá Airbus , nú þegar losað hefur verið um fjármuni þeirra erlendis. Í lok fréttarinnar var sagt að skrifað yrði undir samninga við fulltrúa Boeing í París. Það var og.

Þarna hefur yfirlestur ekki verið til staðar, – eða ekki vandlega lesið. Þetta var seinna rétt á fréttavefnum. http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/siddegisfrettir/20160124 Skrifa átti undir samninga við seljendur, Airbusverksmiðjurnar.

 

MÉR HUGNAST

Úr frétt á mbl.is (25.01.2016): ,,Lands­bank­inn, sem var einn eig­anda á þeim tíma hugnaðist ekki þessi aukna áhætta og áherslu­breyt­ing.”

Einhverjum hugnast (ekki) eitthvað. Þess vegna hefði átt að standa hér: – Landsbankanum hugnaðist ekki þessi aukna áhætta og áherslubreyting.

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/01/25/vidskipti_tengd_klami_og_vedmalum/

 

AÐ VERA Á VAGNINUM – OG FLEIRA

Oft hefur verið bent á hér að málfari er á stundum ábótavant í morgunþætti Rásar tvö. Á þriðjudagsmorgni (25.01.2016) talaði einn umsjónarmanna um mann sem hefði farið í meðferð og hefði haldið sig á vagninum síðan. Ekki er Molaskrifari viss um að allir hafi skilið þetta. Þetta er hráþýðing úr amerísku talmáli. Að vera á vagninum, to be on the wagon, þýddi upphaflega að vera í áfengisbindindi, halda sig frá áfengi, neyta ekki áfengis, – en nú þetta ekki bara notað um að halda sig frá áfengi heldur einnig frá öðrum fíkniefnum og eiturlyfjum. Molaskrifari hefur ekki heyrt það notað í íslensku talmáli að vera á vagninum um að vera í bindindi. Að vera á vatnsvagninum, drekka ekki áfengivar merkingin. Upphaflegi vagninn, sem átt var við, var vatnsvagn, sem flutti vatn til að binda ryk á malargötum. Krakkar í Reykjavík, fyrir daga malbikunar töluðu um sprautubílinn og þótti koma hans mikil tilbreyting!

Í þessum sama þætti var fróðlegt málskot, þar sem málfarsráðunautur lagði ýmislegt gott til málanna, meðal annars um rétta notkun orðtaka. – Í spjallinu var sagt að skörin væri farin að færast upp á bekkinn. Rétt er orðtakið að skörin sé farin að færast upp í bekkinn.  Góð skýring á þessu er í Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson , bls.784. ,,Skör er þrep fyrir neðan pall/bekk, en minni háttar fólk sat á skörinni. Skör er hér tákn þess er má sín lítils og vísar líkingin til þess er minni háttar fólk vogaði sér að setjast upp í bekkinn.”

Í lokin: Leikin var sænsk tónlist í þessum þætti. Allt gott um það, en tónminni stjórnenda náði ekki langt aftur, náði til dæmis ekki til til söngkonunnar Alice Babs (1924-2014) Hún var ein frægasta söngkona Svía á liðinni öld, jafnvíg á dægurlög, djass og sígilda tónlist. Kannski ekki jafn fræg og óperusöngkonurnar Birgit Nilsson og Elisabeth Söderström. Alice Babs vann meðal annars mikið með Duke Ellington. Um hana hafa verið gerðir frábærir sjónvarpsþættir. En þetta þykir sjálfsagt nöldur aftan úr fornöld!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>