«

»

Molar um málfar og miðla 1879

 

 

BANNAÐ BÖRNUM –

Síðastliðið sunnudagskvöld (31.01.2016) var allt dagskrárefni Ríkissjónvarpsins frá klukkan 2100 og til dagskrárloka bannað börnum.

21 00 Ófærð. Bannað börnum.

21 55 Kynlífsfræðingarnir. Stranglega bannað börnum.

22 50 Bangsi. Bannað börnum. Nafnið gæti reyndar gefið til kynna að þetta væri barnaefni. Svo var ekki. Þetta var kvikmynd um vaxtarræktarmann, sem hélt til Taílands í leit að ást og hamingju. Einstaklega áhugavert efni.

Í ljósi þess að samkvæmt íslenskum lögum eru einstaklingar börn til 18 ára aldurs, – og þótt reyndar sé ekki sérstaklega horft til þeirrar skilgreiningar, – þá verður þetta að teljast undarleg dagskrársamsetning. Í þessum miðli sem stjórnendur Ríkisútvarpsins kalla ,,RÚV okkar allra”! Svona þegar vel liggur á þeim.

 

SLETTUR ERU BLETTUR

Slettur, einkum enskuslettur, eru blettur á morgunþætti Rásar tvö. Á mánudag (01.02.2016) sagði sá umsjónarmaður þáttarins sem mest  slettir á okkur á okkur ensku: ,, Eigum við ekki að rifja upp hérna helstu hælæt (enska , – highlight(s) dagsins, aðalatriði dagsins, meginefni þáttarins.

Í þættinum á þriðjudag (02.02.2016) talaði sami umsjónarmaður um það eina sem meikaði sens á þessum tíma dags.- Væri vit í á þessum tíma dags. Nefndi líka settlaðan heimilisföður. Væntanlega heimilisföður, sem tæki lífinu með ró, – væri búinn að hlaupa af sér hornin, kannski. Í málskotinu fór svo langur tími í að ræða um þær áhyggjur umsjónarmanns að fólk notaði slettuna grúbbu í staðinn fyrir slettuna grúppu. Málfarsráðunautur afgreiddi þessa dellu snyrtilega með því að minna á orðið hópur.

Þessar enskuslettur er blettur á þættinum. Blettur á Ríkisútvarpinu.

 

DAGUR KVENFÉLAGSKONUNNAR

Í morgunþætti Rásar tvö (01.02.2016) er stjórnanda Virkra morgna oft hleypt að hljóðnemanum undir lok þáttar til að kynna efni þáttar síns. Í gær sagði hann annars: ,, Og svo er náttúrulega dagur kvenfélagskonunnar í dag og við ætlum að fagna honum og leyfa kvenfélagskonum að hringja inn og senda hvert (hvort?)öðru kveðjur og svona og segja frá sínum kvenfélögum …” . Um þetta þarf ekki að mörg orð.

 

FLÓTTAMANNABÚÐIR

Í fréttum Ríkisútvarps (01.02.2016) var sagt , að forsætisráðherra heimsækti tvær flóttamannabúðir í Líbanon. Þarna hefði átt að tala um tvennar flóttamannabúðir, ekki tvær. Þetta var rétt í fréttum Ríkissjónvarps seinna um kvöldið.

 

FJÖLL OG FIRNINDI

Óvenjulega fróðlegt og gott viðtal var við ferðalanginn, fjallgöngumanninn og fjallaleiðsögumanninn Leif Örn Svavarsson var í morgunþætti Rásar tvö á þriðjudagsmorgni (02.02.2016). Takk fyrir það.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>