«

»

Molar um málfar og miðla 1881

KEYRENDUR

Trausti skrifaði (03.02.2016): ,, Könn­un­in þykir hafa verið kon­um hag­stæð. Þær voru yf­ir­leitt sagðar hegða sér bíl­stjóra best á þjóðveg­um lands­ins. Aðeins 6% töldu þær hættu­leg­ustu keyr­end­urna.“
Trausti spyr: ,,Hvort ætli „keyrendur“ séu staðfuglar eða farfuglar? Þurfa ekki fréttabörnin að fara að læra eitthvað?
Ég taldi mig hafa mætt tveimur gangandi mönnum í morgun, en við nánari umhugsun læðist að mér grunur um að það hafi reyndar verið gangendur. Það kváðu vera liggjendur á langlegudeild Landspítala. Það hljóta nú að vera staðfuglar. Ferðendur eru aftur á móti áreiðanlega farfuglar, sem hingað koma sem „túristar“, aðallega yfir sumartímann, en þó fréttist af einum, nýverið, sem hafði ætlað sér á Laugaveg í Reykjavík, en lenti á Laugarvegi á Siglufirði. Greinilega flækingsfugl!” Þakka bréfið, Trausti. http://www.mbl.is/bill/frettir/2016/02/03/karlar_a_hvitum_sendibilum/

HLUSTIR

Rafn skrifaði (03.02.2016): ,,Sæll Eiður

Hér er til fróðleiks pistill af vef Ríkisútvarpsins, þar sem hvatt er til, að lagt sé við hlustir. Ekki kemur þó fram hvað skuli lagt við hlustirnar. Hér segir mín málkennd, að hvetja hefði átt til að lagðar væru við hlustir. Kveðja Rafn

PS. Ég hefi ekki lagt mínar hlustir að því sem um ræðir, en þetta var úr þætti á vegum Andra Freys!”

Orðalagið sem Rafn vísar til:,, Andri Freyr hvatti konuna til að láta textann flakka sem hún og gerði. Mælt er því með að lagt sé við hlustir.” Þakka bréfið, Rafn. http://www.ruv.is/thaettir/virkir-morgnar

 

AFBÖKUÐ ORÐATILTÆKI

Undir sjónvarpsfréttum (02.02.2016) gjóaði skrifari augum á pistil á vef Ríkisútvarpsins um afbökuð orðatiltæki. http://www.ruv.is/frett/their-roast-sem-fiska Þetta var efnislega umfjöllum málfarsráðunautar í morgunþætti Rásar tvö þennan sama dag. Ágætur pistill. En undir lestrinum sagði fréttamaður í sjónvarpsfréttum um kvikmyndagerð á Austfjörðum: ,, Náttúruöflin virðast leggja á árarnar með framleiðslunni í ár ...” Nokkuð skorti á að fréttamaður færi rétt með orðtakið að leggjast á árar, árina , með einhverjum. Létta undir með einhverjum, hlaupa undir bakka með einhverjum, aðstoða einhvern.

 

BANNI AFLYFT

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (02.02.2016): ,, Nokkrir skólar í Frakkland hafa aflyft reykingabanni á skólalóðum eftir hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember. “ Hér er væntanlega átt við að banni hafi verið aflétt, – reykingar hafi verið leyufðar. Sjá: http://www.ruv.is/frett/leyfa-reykingar-a-skolalod-vegna-hrydjuverka

Enginn yfirlestur frekar en fyrri daginn.

 

Í OG Á

Í frétt í Ríkissjónvarpi (03.02.2016) Um skíðasvæðið í Hlíðarfjalli var sagt að ,,rekstur skíðasvæðisins hefði verið í tapi undan farin ár”. Eðlilegra hefði verið að segja til dæmis, að tap hefði verið á rekstri skíðasvæðisins undan farin ár, skíðasvæðið hefði verið rekið með tapi. – Þá var í fréttum sagt frá umferðarslysi sem orðið hefði skammt frá Hnappavöllum á Öræfum. Það er föst málvenja, að Molaskrifari best veit, þegar talað er um sveitina Öræfi að segja í Öræfum. Hinsvegar sagt inni á öræfum þegar talað er um miðhálendið, óbyggðir.

 

HELLISHEIÐI LOKAR

Hellisheiði lokar væntanlega upp úr hádegi, sagði í fyrirsögn á forsíðu mbl.is (04.02.2016). Ekki var skýrt nánar frá því hverju Hellisheiðin ætlaði að loka, en átt var við að veginum yfir Hellisheiði yrði væntanlega lokað eftir hádegið. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/04/hellisheidi_lokar_vaentanlega_upp_ur_hadegi/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>