«

»

Molar um málfar og miðla 1888

ENN UM VEÐURORÐ

Í Molum var nýlega fjallað um veðurorð. Umhleypingur er oftast notað í fleirtölu um óstöðuga veðráttu með vindum og úrfelli og (oft) með sífelldum breytingum frá frosti til hláku og frá hláku til frosts.

Af mbl.is (12.02.2016): ,,Eft­ir helg­ina er út­lit fyr­ir tals­verðar um­hleyp­ing­ar, og strax á mánu­dag geng­ur nokkuð djúp lægð upp að land­inu með hlý­ind­um og tals­verðri úr­komu.” Hér hefði átt að segja, að útlit væri fyrir talsverða umhleypinga

TH sá þetta líka og sagði í bréfi: ,, Hér er þörf á að kenna fréttabörnum kyn og fallbeygingu umhleypinga!”

 

AÐ FARA SÉR AÐ VOÐA

Lesandi skrifaði (14.02.2016): ,,Hvaða skoðun sem maður hefur á stefnu eða innihaldi Mbl, þá hélt ég að íslenskukunnátta þar væri betri – kannski er mín kunnátta bara svona slæm – sjá þessa klausu :
– ,,Fjöldi fólks fór sér að voða í Reyn­is­fjöru aðeins ör­fá­um tím­um eft­ir að kín­versk­ur ferðamaður lét þar lífið á miðviku­dag”.-
Ef fólk fer sér að voða, í mínum skilningi, þá fórst fjöldi manna í Reynisfjöru, stuttu eftir þetta hörmulega slys.” – Þakka ábendinguna. En orðabókin segir, að það að fara sér að voða sé að slasa sig vegna óvarkárni. Þannig að þetta orðalag er gott og gilt.

 

VISA INCORPORATED

Fyrirtæki sem á alþjóðavísu heitir Visa Incorporated hefur borið á góma í fréttum undanfarið. Stundum er það nefnt Visa ink (Inc) og stundum Visa Incorporate!  Sjaldnar heyrist Visa Incorporated, sem er hið rétta heiti (á ensku). Chrysler bílaverksmiðjurnar hétu um skeið Chrysler Corporation. Þetta er svipað því, að það fyrirtæki hefði verið kallað Chrysler Corp !

 

BÍLVELTA VARÐ

Enn er í fréttum talað um að bílavelta hafi orðið. Af mbl.is (14.02.2016): ,,Bíl­velta varð und­ir Ing­ólfs­fjalli um klukk­an átta í morg­un”. Hér hefði átt að segja: Bíll valt undir Ingólfsfjalli um klukkan átta í morgun.Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/14/bilvelta_undir_ingolfsfjalli/

 

ÍSLAND TODAY

Það er að verða aðalsmerki Stöðvar tvö að hræra saman íslensku og ensku í þáttaheitum. Á föstudagskvöld (12.02.2016) kynnti sjálfur sjónvarpsstjóri 365 miðla, Stöðvar tvö, Jón Gnarr, þátt með heitinu Ísland Today, – hversvegna ekki hafa heitið alveg á ensku, – Iceland Today? Sjónvarpsstjórinn sagði, að þetta væri happening fréttaþáttur. Sjónvarpsstjórinn er ekki mikið fyrir íslenskuna samkvæmt þessu. Önnur smekkleysan í þáttaheiti á þessari sjónvarpsstöð er þáttur, sem heitir grautarslettunafninu: Ísland got talent.

Málsóðar ráða greinilega ríkjum á Stöð tvö. Því má svo bæta við að popplag í dægurlagakeppni Ríkissjónvarpsins, sem á vinsældum að fagna, heitir samkvæmt fréttum: ,,Spring yfir heiminum”. Er það ekki samskonar subbugrautarheiti? Hvað þýðir þetta? Molaskrifari skilur það ekki.

Svo auglýsir Íslandsbanki app eða smáforrit, sem þeir kalla Kass! Sennilega tekið úr ensku, (e. cash – reiðufé). Það er ekki öll vitleysan eins.

 

MEIRI SLETTUR

Maður sem aldrei virtist eiga breik(e. break). Maður sem aldrei var gefið tækifæri, aldrei fékk að njóta sín. Þetta var sagt við okkur í morgunþætti Rásar tvö (12.02.2016). Það er ekkert lát á þessu  þar á bæ.

 

LYFJAAUGLÝSING

Nú er heimilt að auglýsa lyf, sem ekki eru lyfseðilsskyld. Í sjónvarpsauglýsingu um Voltaren Gel er birt skjáfylli af texta , einar 18 línur með smáu letri. Textinn er 3-4 sekúndur á skjánum. Útilokað að lesa nema 2-3 línur. Hvaða tilgangi þjónar þetta? Áhorfendur eru engu nær. Einfaldara væri að nota tvö orð: Lesið leiðbeiningarnar. Þetta gildir um fleiri lyf, sem nú eru auglýst í sjónvarpi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta.

  2. Eiður skrifar:

    Rétt, Þorvaldur.

  3. Þorvaldur S skrifar:

    Ef það að fara sér að voða þýðir að slasa sig vegna óvarkárni er það ekki gott og gilt eins og Moggamenn notuðu það. Enginn slasaðist í fjörunni annar en þessi Kínverji. Hins vegar stefndi fjöldi manns sér í voða þótt betur færi en á horfðist.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>