«

»

Molar um málfar og miðla 1897

AÐ ÚÐA

Molavin skrifaði (26.02.2016) :,, Á síðu Ríkisútvarpsins segir í frétt (26.02.2016 – Ásrún Brynja Ingvarsdóttir): „Laust fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um tvo pilta vera að spreyja á húsveggi í vesturbæ Reykjavíkur.“ Ekki er ljóst hvort fréttamaður tekur þetta orðrétt úr tilkynningu lögreglu, þar er margt kynduglega orðað, en vart er það samboðið fréttastofunni að sletta svo ensku að skrifa „spreyja.“ Málningu var greinilega úðað á veggi. Varla leggur málfarsráðunautur blessun sína á enskuslettur.” Nei, ekki trúir Molaskrifari því. En verklag á fréttastofu Ríkisútvarpsins er ekki í lagi, þegar svona lagað er sagt við okkur.

 

ÆTTLEIÐING

Ingibjörg Ingadóttir skrifaði (26.02.2016):

,,Sæll Eiður. Sumt fólk hefur áhuga á fjölskyldumálum þeirra frægu. Ég held nú að flestir sem smelltu á þennan hlekk http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/02/25/bundchen_og_brady_aettleida/ hafi haldið að um barn væri að ræða. En alveg er furðulegt að ekki er lengur gerður greinarmunur á því hvort fólk er að ættleiða barn eða taka að sér hund eða kött. Talað er um ættleiðingardaga þegar fólki gefst kostur á að koma og velja sér kisu sem vantar heimili. Engu er líkara en fólk skilji ekki lengur hvað orðið „ættleiðing“ merkir. Hundkvikindið kemur ekki til með að erfa þau hjónin líkt og börn þeirra.” Hárétt athugað Ingibjörg. Þakka bréfið.

DAGLEGAR FERÐR

Rafn skrifaði (26.02.2016):,, Neðanrituð fyrirsögn var á vefsíðunni Visi.is í dag. Ég ímynda mér, að hér sé fjöldi þeirra sem fer daglega um göngin væntanlega oftalinn. Ætla má, að stór hluti þeirra sem fara daglega um göngin, fari fram og til baka og þar sem meðalfjöldi ferða um göngin dag hvern á árinu 2015 var 5.612 ferðir er sennilegt að um ofáætlun sé að ræða. PS: Ég lít fram hjá ritvillunni „daglegu“ í stað „daglega“.

Rúmlega 5 þúsund ökumenn fóru daglegu um Hvalfjarðargöngin.

http://www.visir.is/rumlega-5-thusund-okumenn-foru-daglega-um-hvalfjardargongin/article/2016160229109

FJÖLDI UMSAGNA

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (27.02.2016) var sagt: Fjöldi umsagna hafa borist. Betra hefði verið: Fjöldi umsagna hefur borist.

HENNI LOKAÐI

Enn er hér fjallað um sögnina að loka sem veldur fréttaskrifurum ærið oft vandræðum. Af dv.is (25.02.2016) um gjaldþrot tískuvöruverslunar/verslana: ,, ”(Athugið að í fyrstu var því haldið fram að verslunin væri enn opin í Smáralindinni, en henni lokaði fyrir ári síðan samkvæmt ábendingu frá Smáralindinni)” Versluninni lokaði ekki fyrir ári síðan. Henni var lokað

 

ENN VEFST ZETAN FYRIR MÖNNUM

Stefán H. Vakti athygli á auglýsingu frá Toyota (25.02.2016) þar sem Toyotabíleigeindum er boðið Boðið upp á ókeypis ástanszkoðun! Já, Ókeypis ástanzskoðun.

 

SUBBUSKAPUR

svokallaðra ,,Hraðfréttamanna” Ríkissjónvarps  helltist yfir okkur við afhendingu Edduverðlauna í gærkvöldi (28.02.2016). Reykingar og bjórþamb á skjánum við verðlaunaafhenginu. Er þeim borgað fyrir að auglýsa bjór í sjónvarpinu?   Auglýst er eftir sjálfsvirðingu Ríkisútvarpsins.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. BS skrifar:

    Vegna athugasemdar Jóns er rétt að komi fram þessi skýring við beygingarlýsingar: „Sögnin spreyja og hvorugkynsnafnorðið sprey eru tökuorð sem ekki er mælt með í Málfarsbanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.“

  2. Jón skrifar:

    Beygingarlýsing íslensks nútímamáls

    spreyja Sagnorð, veik beyging

    http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=spreyja

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>