NIÐURLÖG ELDS
Rafn spyr í bréfi (08.03.2016): ,,Sæll Eiður
Hefir þú heyrt talað um að vinna að niðurlögum elds eða einhvers annars??” Þakka bréfið , Rafn. Nei. Þetta orðalag hef ég aldrei heyrt. Geri ekki ráð fyrir að margir hafi heyrt svona til orða tekið. Rafn er hér að vísa til fréttar á mbl.is (07.03.2016) þar sem segir: ,, Er unnið að niðurlögum eldsins en vegna hættulegra efna, sem finna má inni í húsinu, hefur verið ákveðið að senda ekki slökkviliðsmenn þangað inn.” Hér hefði betur verið sagt , til dæmis: Unnið er að því að ráða niðurlögum eldsins , – unnið er að slökkvistarfi. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/07/logregla_leitar_tveggja_manna/
TRÚVERÐUGLEIKI
Það skiptir máli fyrir félagasamtök, að talsmenn þeirra í fjölmiðlum séu trúverðugir. Molaskrifari hlustaði á talsmann (gott ef það var ekki varaformaður) Neytendasamtakanna í morgunútvarpi Rásar tvö (08.03.2016) tala um fyrirhugaðar arðgreiðslur tryggingafélaganna, sem hækkuðu iðgjöld vegna slæmrar afkomu, en ætla svo að greiða eigendum sínum hærri arð en nokkru sinni fyrr. Meðal þess sem fulltrúi Neytendasamtakanna sagði var: Ef horfir sem horfir, ætlaði sennilega að segja, – ef heldur sem horfir, – ef þróunin verður eins og útlit er fyrir. Og bætti við, – … munu þau ekki bíta úr nálinni … að segja að einhver sé ekki búinn að bíta úr nálinni með eitthvað, – þýðir að sá sem um er rætt sé ekki búinn að taka afleiðingum af einhverju eða gera sér grein fyrir neikvæðum afleiðingum einhvers. Hann hefði getað sagt: Þau eru ekki búin að bíta úr nálinni með þetta. Og svo talaði þessi fulltrúi Neytendasamtakanna um að hagsmunasamtök ætluðu að rotta sig saman. Að rotta sig saman er að mati Molaskrifara ævinlega notað í niðrandi merkingu, talað er um að menn rotti sig saman til illra verka. Hann hefði getað sagt að hagsmunasamtök ætluðu að starfa saman, vinna saman, hafa samvinnu um e-ð. Það var ótrúverðugt að hlusta á þetta. – Var það ekki annars Félag íslenskra bifreiðaeigenda, sem varð fyrst til þess að vekja athygli á framferði vátryggingafélaganna, ekki Neytendasamtökin?
ELDUR VARÐ
Lengi hefur tíðkast að segja í fréttum bílvelta varð, í staðinn fyrir, – bíll valt. Ný útgáfu af þessu orðalagi heyrðist í seinni fréttum Ríkissjónvarps á mánudagskvöld, þegar sagt var frá eldsvoða í verkstæðisbyggingu við Grettisgötu í Reykjavík. Þá sagði fréttaþulur: Mikill eldur varð á réttingaverkstæði … Molaskrifari er á því að betra hefði verið að segja: Mikill eldur kom upp á réttingaverkstæði, eða mikill eldsvoði varð … Það varð ekki eldur. Það kom upp eldur, það kviknaði í. Eða var kveikt í.
BDSM FRÉTTIR
Í fréttum, til dæmis í útvarpi, var framan af vikunni aftur og aftur talað um eitthvert BDSM félag og deilur í kring um það , án þess að nokkrar skýringar fylgdu með. Greinilega var gengið út frá því að hlustendur vissu nákvæmlega um hvað væri verið að tala. Molaskrifari kom af fjöllum. Það var ekki fyrr en hann hlustaði á morgunþátt Rásar tvö (08.03.2016) að málið skýrðist svolítið og vísað var til greinar á pressan. is. Þetta snerist sem sé um það sem margir mundu kalla kynferðislegan öfuguggahátt ( nú verður skrifari sakaður um fordóma) og Molaskrifara fannst ekki áhugavert umfjöllunarefni í fréttum Ríkisútvarps. Það var kannski ágætt að skýra þetta út í morgunútvarpinu. En hér er hin merkilega grein á pressan.is : http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_roggu_eir/eg-hef-akvadid-ad-stiga-fram_-
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar