GÓÐ GÆÐI
Úr frétt á mbl.is (23.03.2016) ,, Neytendastofa hvetur innflytjendur og dreifingaraðila endurskinsmerkja að vera vissir um að merkin séu af góðum gæðum. “ Af góðum gæðum! Með öðrum orðum að merkin séu vönduð að allri gerð. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/03/23/endurskinsmerki_innkollud/
VIÐTENGINGARHÁTTUR
Í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (24.03.2016) segir: ,, Icelandair fljúgi til Brussel á sunnudag”. Þessi fyrirsögn opinberar að sá sem hana samdi kann ekki að nota viðtengingarhátt. Þetta orðalag er út í hött. Icelandair fyrirhugar að fljúga til Brussel á sunnudag, þegar vonast er til að flugvöllurinn hafi verið opnaður fyrir flugumferð að nýju.
Annað dæmi um ranga notkun viðtengingarháttar í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins (25.03.2016): Sigmundur grafi undan efnahagslegu fullveldi. – Á þetta að vera hvatning?
http://www.ruv.is/frett/sigmundur-grafi-undan-efnahagslegu-fullveldi
Helgi Haraldsson, prófessor emerítus í Osló hnaut einnig um þetta og nefndi í tölvubréfi til Mola (26.03.2016). Helgi spyr: ,,Er RÚV að að hvetja forsætisráðherra til fjárhagslegra hryðjuverka?” Ekki er nema von að spurt sé! Þakka bréfið, Helgi.
Er ekki ástæða til að málfarsráðunautur ræði þetta við fréttamenn? Fjalli um viðtengingarhátt, hvernig nota skuli.
ENSKAN
Hér er öðru hverju fjallað um stöðuga sókn enskunnar inn í tungu okkar. Bílaumboðið Askja auglýsti nýlega Ess jú ví bíla í útvarpi . Ekki er Molaskrifari viss um að allir hlustendur hafi skilið um hverskonar bíla þarna var að ræða. Hér er um að ræða bíla, sem á ensku eru kallaðir SUV, Sport Utility Vehicle, bíla með drif á öllum hjólum, oft kallaðir jeppar eða jepplingar á íslensku.
Í morgunútvarpi Rásar tvö slá umsjónarmenn gjarnan um sig með enskuslettum. Á miðvikudagsmorgni talaði umsjónarmaður um internship, en þýddi síðan og talaði um starfsnám. Hversvegna þurfti líka að nota enskuna? Algjör óþarfi.
Og svo má nefna að flugfélagið WOW segist ,,gjarnan höfða til fjölskyldunnar með skráningarnúmer ( reyndar eru það einkennisstafir, ekki númer, strangt til tekið) á flugflotanum”. Félagið nefnir þar til sögunnar TF MOM, TF DAD, TF SIS,TF BRO og TF KID! Kannski má virða fyrirtækinu það til vorkunnar að það er kannski ekki síður að höfða til útlendinga en íslendinga.
Kona,sem setur efni á fésbók um foreldra sína (24.03.2016) notar fyrir fyrirsögnina Ma&Pa.
Á góðri leið með að meika það, er fyrirsögn af mbl.is (25.03.2016).
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/25/a_godri_leid_med_ad_meika_thad_5/
Á þriðjudagsmorgni (29.03.2016) talaði umsjónarmaður morgunþáttar Rásar tvö um að nú væri ,,high season norðurljósanna”, – um þessar mundir sæist best til norðurljósanna. Hversvegna þessar sífelldu enskuslettur í þessum oft ágæta þætti? Margir kunna dálítið og jafnvel mikið í ensku, en hafa ekki þessa sterku þörf fyrir að vera sífellt að flíka enskukunnáttu sinni. Hvimleitt.
Þetta eru aðeins örfá dæmi. Er fólki alveg sama?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar