ÚR FRÉTTUM
V.H. skrifaði Molum eftirfarandi (29.03.2016): ,, Um páska var haldin tónlistahátíðin ,,Aldrei fór ég suður´´ og alltaf er fréttakona kom á skjáinn þá kom texti að hún talaði frá Vestfjörðum .. þegar hún talaði bara frá Ísafirði .. nóg að vera bara í einum firði í einu. Ekki satt ?
Lögreglan handtók mann sem hafði í sínum fórum heimagerð lögregluskilríki … heitir það ekki bara fölsuð skilríki ?
Útikofi á Selfossi brann til kaldra kola … útikofi! .. er þá til líka innikofi? Er ekki nóg að hafa bara kofa ?
Barn var afhöfðað í Asíu .. afhöfðað ? til er gamalt og gott orð yfir þetta athæfi hálshöggva.”
Molaskrifari þakkar V.H. bréfið. Bætir við að orðið afhöfðað er augljós aulaþýðing úr ensku, beheaded. Allt eru þetta réttmætar athugasemdir. Vonandi komast þær til skila, – til þeirra sem þetta hafa skrifað.
ENN EIN …
Enn ein dellufyrirsögnin af fréttavef Ríkisútvarpsins (31.03.2017): 27 milljón fiskar drepist í Chile. Lagt er til að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins kenni fréttamönnum, sem ekki ráða við það að nota viðtengingarhátt, hvernig nota skuli viðtengingarhátt. Þetta hefur raunar oft verið nefnt í Molum.
http://www.ruv.is/frett/27-milljon-fiskar-drepist-i-chile
UM FALLAVILLU
Rafn skrifaði (30.03.2016):,, Sæll Eiður
Klausan hér fyrir neðan var í mola nr. 1916. Hefði ekki verið rétt að snúa þessu alla leið á íslenzku og segja:
,,Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telur að sér hafi ekki borið nein skylda til að …” Rétt athugað , Rafn. Þakka bréfið. Í Molum stóð:
,,FALLAVILLAÍ fréttayfirliti Bylgjunnar á skírdag (24.03.2016) var sagt: ,,Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telur að hann hafi ekki borið nein skylda til að …” Enginn les yfir. Ekki frekar en venjulega. Ekki frekar en annarsstaðar. Honum hafi ekki borið nein skylda til ….”
Þakka bréfið, Rafn.
EKKI NÁKVÆMT
Í lítilli frétt á forsíðu Morgunblaðsins í dag (01.04.2016) segir: ,,Ekki ríkir 110 ára leynd yfir skjölunum um uppgjör gömlu bankanna,sem alþingismenn hafa fengið að skoða trúnaði, eins og hefur mátt skilja af fréttum”. Þetta hefur einkum mátt skilja af Framsóknarmönnum, – ekki fréttum almennt. Þetta tal um 110 ára leynd var rauði þráðurinn í ræðum Vigdísar Hauksdóttur, framsóknarþingmannsins,sem er formaður fjárlaga nefndar í Kastljósi í gærkvöldi. Þjóðskjalavörður lýsti svo yfir ,að þessi regla væri ekki til.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar