POPPGOÐIÐ
H. skrifaði Molum (22.04.2016): ,,Í Mogga dagsins stendur: Poppgoðið Prince látinn.”
Þetta stangast á við máltilfinningu mína.” Sammála. Hér hefði átt að standa: ,,Poppgoðið Prince látið” . Goð er hvorugkynsorð. Þakka ábendinguna.
BÍLVELTA VARÐ
Áfram er haldið að segja í fréttum: Bílvelta varð.
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (231.04.2016): Tvær bílveltur urðu í nótt.
Í Molum hafa áður verið gerðar athugasemdir við þetta orðalag. Ómar Ragnarsson hefur líka gert athugasemdir við þetta á bloggi sínu. En bílveltur halda áfram að verða. Hér hefði farið betur á að segja, til dæmis: Tveir bílar ultu í nótt. Eða tvær bílveltur í nótt. http://www.ruv.is/frett/tvaer-bilveltur-i-nott-0
LÍFÆÐAR HJARTANS
Lífæðar hjartans var prýðilegur fræðsluþáttur Hjartaheilla, sem Ríkissjónvarpið sýndi á miðvikudagskvöld (20.04.2016). Það þarf ekki alltaf að kosta miklu til til að gera áhugaverða þætti eins og þennan. Ríkissjónvarpið gæti ýmislegt af því lært.
SUMT FÆR AÐ VERA Í FRIÐI
Sem betur fer fær sumt að vera að vera í friði fyrir þeirri þörf stjórnenda Ríkisútvarpsins að setja sitt mark á dagskrána og breyta því sem engin ástæða er til að breyta.
Þannig fékk morgundagskrá Ríkisútvarpsins á Rás eitt að vera í friði á sumardaginn fyrsta (21.04.2016) . Fyrst Mendelsohn og síðan gömlu sumar- og ættajarðarlögin. Sumar hefðir eiga að fá að lifa í friði.
NORSK KONA ….
Úr frétt á vef Ríkisútvarpsins (23.04.2016): ,, Norsk kona sem hugðist skoða híbýli tígrisdýrs ásamt barni sínu í Dyreparken í Kristiansand brá heldur en ekki í brún þegar hún sá dauðan, hauslausan sebrahest í búrinu.” Norsk kona brá ekki brún. Norskri konu brá í brún. Hjálp, málfarsráðunautur! Ekki í fyrsta skipti
http://www.ruv.is/frett/hauslaust-hrae-i-dyragardi-vekur-ohug
STAFSETNING
Stöð tvö á ekki að láta fólk semja skjátexta, sem veit ekki að í orðinu þátttaka eru þrjú – t -. Þetta sáum við í fréttatímanum á sumardaginn fyrsta (21.04.2016)
ÞRÍR FYRIR TVO
Þegar verslunin Intersport auglýsir: Þrír fyrir tvo af öllum skóm, þýðir það þá að maður fái þrjá skó? Dæmalaust að láta sér detta í hug að orða þetta svona. Er ekki átt við að kaupi maður tvö pör af skóm fylgi þriðja parið. Eða hvað ?
ÞJÓÐBRAUT
Þáttur Sigurjóns M. Egilssonar Þjóðbraut á Hringbraut fór ágætlega af stað í gærmorgun (24.04.2015). Þetta á þó eftir að slípast og heiti þáttarins mætti að skaðlausu birtast oftar á skjánum.
Í tímaflakkinu í sjónvarpi Símans var dagskrá Hringbautar kolrugluð í gærmorgun.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar